Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Oddur Hallgrímsson

(2. mars 1819–25. apr. 1882)

Prestur.

Foreldrar: Síra Hallgrímur Jónsson í Görðum á Akranesi og s.k. hans Guðrún Egilsdóttir. Vandist snemma erfiðisvinnu, en móðurbróðir hans, Sveinbjörn Egilsson, síðar rektor, tók hann til sín, kenndi honum og kom honum í Bessastaðaskóla 1839, varð stúdent 1845 (88 st.), var næsta vetur við barnakennslu í Viðey, fór utan 1846, varð þar geðbilaður og þá afturreka í aðgönguprófi í háskólanum, kom aftur til landsins 1848, og varð, sem lög stóðu til, að taka stúdentspróf af nýju, hlaut 3. eink. (í Reykjavíkurskóla), próf úr prestaskóla 22. júlí 1850, með 3. einkunn (16. st.), var síðan lengi barnakennari, vígðist 29. sept. 1861 aðstoðarprestur síra Friðriks Eggerz í Skarðsþingum, bjó í Langeyjarnesi, fekk Gufudal 11. nóv. 1871, fluttist þangað 1872 og hélt til æviloka, en byggði þó staðinn öðrum og flutti sjálfur að Hofstöðum, Gufudalskirkjujörð, næsta bæ við Gufudal, og var þar til þess er hann dó. Var grandvar maður í öllu lífi sínu, hógvær mjög í allri framkomu, skyldurækinn og fekk gott orð og var vel látinn af öllum, sem þekktu hann, og á geðveiki hans mun lítið 13 hafa borið að öðru leyti en því, að hann var stundum nokkuð utan við sig.

Kona (17. ágúst 1862): Valgerður Sigríður (f. 6. sept. 1833, d. 28. okt. 1901) Benjamínsdóttir í Langeyjarnesi, Björnssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Hallbjörn Edvard, var síðast á Akranesi, Benjamín að Klukkufelli, Guðrún Sigríður Sigþrúður átti Guðmund skipstjóra Sturluson að Arnarstapa í Tálknafirði (Vitæ ordinatorum 1861; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.