Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Oddur Gíslason

(1740–2. okt. 1786)

Prestur.

Foreldrar: Gísli byskup Magnússon og kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir lögsagnara að Geitaskarði, Einarssonar. Tekinn í Hólaskóla 1755, stúdent 31. maí 1761, fór utan 1762, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 17. dec. s. á., tók guðfræðapróf 15. maí 1765, með 3. einkunn, fekk Miklabæ 18. júlí 1767, vígðist 1. nóv. s. á. og hélt til æviloka; andaðist skyndilega á leið heim til sín frá næsta bæ, og eru þjóðsagnir um hvarf hans. Talinn fremur ógáfaður og lítill lærdómsmaður, en söngmaður góður og hraustmenni.

Kona (13. júní 1777): Guðrún (d. 14. febr. 1811, 59 ára) Jónsdóttir prests í Goðdölum, Sveinssonar.

Börn þeirra: Síra Gísli á Hafsteinsstöðum, Ingibjörg átti síra Jón Jónsson að Auðkúlu (HÞ. Guðfr.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.