Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Oddur Eiríksson

(um 1707– um 1785)

Lögréttumaður, stúdent.

Foreldrar: Síra Eiríkur Oddsson að Hrepphólum og kona hans Guðrún Daðadóttir.

Tekinn í Skálholtsskóla 1722, stúdent 1732, var síðan í þjónustu Sigurðar sýslumanns eldra Sigurðssonar í Saurbæ á Kjalarnesi, fór utan 1735, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 20. dec. s. á., lagði stund á lögfræði og í 2 góðum heimildum er þess getið, að hann hafi tekið próf í dönskum lögum, en hefir raunar fengið vottorð frá lagaprófessor 16. maí 1739 um að hafa stundað nám hjá sér, virðist og hafa numið skinnasútun, Kom aftur til landsins 1739, var fyrst eitthvað í þjónustu Jóns byskups Árnasonar, bjó að Innra Hólmi 1747–59, varð lögréttumaður í Þverárþingi 1749, lét af búskap (um 1760) og gerðist lausamaður, enda var hann smiður góður, einkum á látún, signet, söðla og beizli, dvaldist á ýmsum stöðum, andaðist að Stóra Botni í Hvalfirði.

Kona (12. mars 1747). Margrét (d. 1759) Þórðardóttir lögréttumanns að Innra Hólmi, Péturssonar, ekkja Eiríks stúdents Vigfússonar í Höfn í Melasveit; féll lítt á með þeim, en þó gaf hún honum löggjöf eftir sig (staðfest í arfleiðsluskrá hennar 17. jan. 1759, og ber þar mjög lof á hann); þau bl. (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.