Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Nikulás Oddsson

(1555–um 1631)

Lögréttumaður, skáld.

Foreldrar: Síra Oddur Þorsteinsson að Felli (Tröllatungu) og f. k. hans Geirdís Torfadóttir prests í Saurbæ í Eyjafirði, Jónssonar. Bjó á Kjallaksstöðum, í Görðum í Staðarsveit, en síðast í Brekkubæ. Eftir hann er nú eigi kunnugt nema eitt kvæði.

Kona: Guðný laundóttir Bjarna Oddssonar að Skarði. Dætur þeirra: Guðrún átti fyrr Árna Sæmundsson í Syðri Görðum (Hofgörðum) í Staðarsveit, síðar Pál sýslumann Erlendsson, Halldóra átti síra Vigfús Helgason í Breiðavíkurþingum.

Launbörn Nikulásar: Barbara átti Hrómund Bjarnason, Margrét átti fyrr Snorra Hallsson, síðar Jón Gottskálksson, Guðmundur, Einar (PEÓl. Mm.; Saga Ísl. IV; BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.