Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Nikulás Magnússon

(um 1700–25. júlí 1742)

Sýslumaður.

Foreldrar: Magnús Benediktsson að Hólum í Eyjafirði og kona hans Ingibjörg Þorkelsdóttir sýslumanns á Þingeyrum, Guðmundssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1713, stúdent 1719 eða 1720, fór utan 1720, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 21. dec. s. á., fekk 29. sept. 1722 innheimtu byskupstíunda í Rangárþingi og var þá skrifari frænda síns síra Þorleifs Arasonar á Breiðabólstað í Fljótshlíð, enda hafði áður verið á vegum hans„ hélt því umboði 1723–4, varð 1724 lögsagnari Hákonar sýslumanns Hannessonar, fekk sýsluna 26. apr. 1727, var með konungsbréfi 7. maí 1735 með Guðmundi sýslumanni Sigurðssyni skipaður Magnúsi lögmanni Gíslasyni til aðstoðar við lagaverkið, var í lögmannssæti á alþingi 1740 að boði Lafrentz amtmanns (sem þó hafði niðrað honum mjög í bréfi til stiftamtmanns 30. ág. 1726, og er þó ekki alls kostar að marka, því að amtmaður var oft hranalegur í dómum um menn), bjó að Núpi í Fljótshlíð frá 1729, í Holti undir Eyjafjöllum líkl. frá 1732, að Stórólfshvoli frá 1736, á Barkarstöðum frá 1740.

Varð sturlaður á alþingi 1742 og fannst dauður í gjá þeirri, er síðan ber nafn hans, en bæði Lafrentz amtmaður o. fl. merkir menn þá á alþingi töldu óvíst, að hann hefði drekkt sér.

Hann var tvívegis sektaður fyrir drátt í málum, var „í mörgu haldinn mætur maður“.

Kona (27. jan. 1732, kaupmáli 2. nóv. 1731). Rannveig (f. um 1710, d. 2. júlí 1785) Þorsteinsdóttir prests í Holti undir Eyjafjöllum, Oddssonar. Synir þeirra: Þorleifur alþingisskrifari að Hlíðarenda, Guðmundur eldri að Eystri Skógum (d. 13. mars 1808, á 96. ári), Guðmundur yngri í Fljótsdal (d. 27. sept. 1818, 84 ára) (aldursröðin á þeim bræðrum jafnan skekkt, en hlýtur að vera svona, eftir aldri þeirra á dánardegi), Þorsteinn stúdent og baccalaureus (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.