Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Natan Ketilsson

(1795–14. mars 1828)

Bóndi síðast á TIIugastöðum á Vatnsnesi.

Foreldrar: Ketill í Hólabæ Eyjólfsson (hreppstjóra að Móbergi í Langadal, Eyjólfssonar) og kona hans Guðrún Hallsdóttir að Stafshóli í Deildarðal, Kárasonar. Ólst upp með móður sinni, eftir lát föður síns.

Var snemmendis bráðger og bókhneigður, vel hagmæltur, en tregur til vinnu, hóf snemma lækningar, þókti vel takast, og hélt þeim fram alla ævi, var og í Kh. vetrartíma, en komst þar í basl. Blendinn og bragðvís, gróðamaður og fekk skjótt misjafnt orð, enda lauslátur, og var hann veginn að næturþeli (af Friðriki Sigurðssyni frá Katadal); var síðan kveikt í bænum af vegandanum og þeim, er með honum voru að verki, en áverkarnir sáust á líki hans, er lítt brann, og komst allt upp. Ókvæntur, en átti fjölda barna með hinum og þessum. Var merkast barna hans Hans skáld að Þóreyjarnúpi.

Börn átti hann og með Vatnsenda-Rósu (Skáld-Rósu), og mun þaðan kyn nokkurt (Gísli Konr.: Sagan af N. Ket., Ísaf. 1892; Br. J. frá Minna Núpi: Saga N. Ket. og Skáld-Rósu, Rv. 1912).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.