Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Marteinn Arnoddsson

(um 1675–5. maí 1747)

Prentari.

Foreldrar (líklega): Arnoddur Þorsteinsson í Eystri Garðsvika, síðar í Litla Gerði í Hvolhrepp, og kona hans Óshildur Ólafsdóttir. Var um tíma í Skálholtsskóla á vegum Guðríðar byskupsfrúr Gísladóttur (eftir 1690), fekk þar ekki gott orð, og varð ekki stúdent, fór utan 1697, með Brynjólfi Þórðarsyni Thorlacius, lagði fyrir sig prentverk, kom til landsins aftur 1703 að beiðni Brynjólfs og skyldi standa fyrir prentsmiðju hans að Hlíðarenda, en er Björn byskup Þorleifsson keypti prentsmiðjuna, fluttist hann að Hólum og var þar prentari, bjó víða, síðast á Kálfsstöðum, var hreppstjóri 1739. Síra Gunnar Pálsson segir um hann (í prentverkssögu sinni), að hann hafi verið vandaður maður, fjörmaður til vinnu og árvakur; hafi hann og verið söngmaður mikill, og hafi enginn staðið Birni byskupi Þorleifssyni á sporði í söng, nema síra Eyjólfur lærði á Völlum og Marteinn.

Kona 1: Málmfríður (f. um 1678) Skúladóttir lögréttumanns á Seylu, Ólafssonar.

Börn þeirra: Guðrún átti Jón lestamann Jónsson að Hólum, Þorbergur (var vinnumaður að Hólum 1745), Guðríður, Þóra.

Kona 2: Guðrún (f. um 1683) Jónsdóttir ráðsmanns að Hólum, Jónssonar (systir síra Jóns að Möðruvallaklaustri). Dóttir þeirra: Steinunn átti Ólaf lögréttumann Björnsson að Möðrufelli (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.