Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Markús Snæbjarnarson

(1619–1697)

Sýslumaður.

Foreldrar: Síra Snæbjörn Stefánsson í Odda og kona hans Margrét Markúsdóttir í Stóra Dal í Skagafirði, Ólafssonar. Lærði í Skálholtsskóla, mun hafa orðið stúdent 1638, var síðan 1 ár hjá föðurbróður sínum, síra Oddi Stefánssyni í Gaulverjabæ, og lagði sig eftir sönglist, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 21. dec. 1640, hefir um 1641 átt barn í lausaleik (sjá sakeyrisreikning Rangárþings 1641–2), bjó fyrst í Haga í Holtum. Varð sýslumaður í Vestmannaeyjum frá því um 1660 til æviloka. Hann var auðmaður mikill. Í AM. 695, 4to., er þýðing eftir hann á riti eftir Justus Lipsius: Um falska tungu.

Kona (um 1645). Kristín (d. 10. nóv. 1673) Einarsdóttir sýslumanns, Hákonarsonar.

Dætur þeirra: Ragnheiður átti fyrr síra Þorvald Björnsson í Stóra Dal, síðar síra Arngrím Pétursson í Vestmannaeyjum, Guðrún átti Bjarna lögréttumann Gíslason í Vetleifsholti og að Ási í Holtum, Anna átti Ísleif Þórðarson að Suðurreykjum, Gróa átti Pál sýslumann Torfason að Núpi (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.