Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Markús Sigurðsson

(1758–3. apr. 1818)

Prestur.

Foreldrar: Síra Sigurður Jónsson í Stafholti og kona hans Sigríður Markúsdóttir prests í Hvammi í Norðurárdal, Eiríkssonar. F. í Stafholti. Tekinn í Skálholtsskóla 1773, stúdent 9. maí 1778, með þeim vitnisburði, að hann sé heldur óskarpur að gáfum, en fremri öðrum skólabræðrum sínum í tölvísi. Var síðan 6 ár hjá móður sinni, þó um tíma starfsmaður í prentverkinu í Hrappsey, vígðist 3. júní 1784 aðstoðarprestur síra Snæbjarnar Þorvarðssonar að Lundi, bjó að Skarði í Lundarreykjadal, fekk Stóra Dal 10. okt. 1786, fór þangað ekki, en gegndi veturinn 1786–T Reynisþingum, fekk þau 1. júní 1787, í skiptum við síra Illuga Hannesson í Stóra Dal, bjó þar fyrst á Heiði, en frá 1796 að Reyni, fekk 20. okt. 1801 Mosfell í Mosfellssveit, í skiptum við síra Auðun Jónsson, fluttist þangað í fardögum 1802 og hélt til æviloka. Talinn góður búmaður og laginn við lækningar.

Kona 1 (23. maí 1787): Sigríður (drukknaði í Ölfusá 11. júlí 1800 með fleiri mönnum, en Markús komst af) Jónsdóttir prests á Prestsbakka, Steingrímssonar, ekkja síra Sigurðar Jónssonar á Heiði. Dóttir þeirra: Sigríður átti síra Þorlák Loptsson að Móum.

Kona 2 (14. apr. 1801): Elín (f. 1773, d. 13. okt. 1843) Jónsdóttir í Varmahlíð undir Eyjafjöllum, Vigfússonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Jón stúdent og kaupmaður í Rv., Solveig átti síra Björn Jónsson á Stokkseyri, Hafliði stúdent í Jaðarkoti (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.