Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Markús Eyjólfsson

(28. okt. 1748–12. jan. 1830)

Prestur.

Foreldrar: Eyjólfur Þórðarson á Skerðingsstöðum í Hvammssveit og f.k. hans Katrín (d. í apr. 1753) Hafliðadóttir prests að Hrepphólum, Bergsveinssonar, Lærði fyrst hjá föðurbróður sínum síra Einari í Hvammi í Hvammssveit í 3 ár, síra Gunnari Pálssyni í Hjarðarholti 1 ár, tekinn í Skálholtsskóla 1769 (efra bekk), stúdent 3. júní 1771, með geysimiklu lofi (lá þó við, að honum væri vísað úr skóla það vor fyrir að berja „bombalda“ eða hvatir að því, en úr því varð úrskurður byskupa um skólahegning). Varð síðan skrifari hjá Jóni varalögmanni Ólafssyni, missti 1773 rétt til prestskapar vegna of bráðrar barneignar með konu sinni, fekk uppreisn 16. dec. 1774, bjó í Galtardalstungu frá því vorið 1774, vígðist 17. nóv. 1776 aðstoðarprestur síra Einars í Hvammi, föðurbróður síns, fekk Dýrafjarðarþing "7. ágúst 1783, en komst ekki vegna harðinda vestur þangað fyrr en í júní 1784, bjó á Mýrum, fekk Sanda 9. júlí 1796, fluttist þangað vorið 1797, lét af prestskap 1817, þá alblindur fyrir 7 árum, fór þá að Hvítanesi, því næst að Hvammi í Dýrafirði, síðan að Fremstu Húsum og loks að Rafnseyri 1824, varð karlægur, og þar andaðist hann. Hann var gáfumaður, kennimaður í betra lagi, dagfarsgóður. Eftir hann er ritgerð um heyannir í lærdómslistafélagsritum XTI., en í Minnisverðum tíðindum TI er þýðing eftir hann á Vegleiðslu um að endurlífga drukknaða menn eftir Mangor. Hann hefir haft gaman af fræðiritum og skrifað upp allmargt merkra handrita frá síðari öldum (sjá Lbs.).

Kona (4. nóv. 1772): Elísabet (d. 4. sept. 1825, 74 ára) Þórðardóttir stúdents í Vigur, Ólafssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Margrét átti síra Torfa Magnússon í Kirkjubólsþingum, Elín átti Jón hreppstjóra Einarsson í Hvítanesi í Ögursveit, Elísabet átti Bjarna Jónsson í Ytra Lambadal (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.