Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Þórðarson

(23. okt. 1801–7. sept. 1860)

Prestur.

Foreldrar: Síra Þórður Þorsteinsson, síðast í Ögurþingum, og kona hans Guðbjörg Magnúsdóttir hreppstjóra í Súðavík, Ólafssonar. F. á Hellisvöllum.

Lærði hjá föður sínum og síra Jóni Sigurðssyni, síðast á Söndum, stúdent úr heimaskóla 15. mars 1825 frá síra Páli Hjálmarssyni á Stað á Reykjanesi, fór s. á. að búa á Eyri í Seyðisfirði, vígðist 15. febr. 1829 aðstoðarprestur föður síns, fluttist að Svarfhóli í Álptafirði 1839, að Hvítanesi 1844 og bjó þar síðan, meðan hann var í Ögurþingum, fekk það prestakall 1. dec. 1837, við uppgjöf föður síns, fekk Rafnseyri 5. okt. 1859, fluttist þangað vorið 1860, en naut þar skammt við. Hann var talinn snilldarmaður í prestverkum, starfsmaður mikill og búsýslumaður, oftast vel efnum búinn.

Kona (21. júní 1825): Matthildur (f. 23. júlí 1807, d. 26. ágúst 1877) Ásgeirsdóttir prests í Holti í Önundarfirði, Jónssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Ásgeir hreppstjóri að Kleifum í Seyðisfirði, Þórður alþm. í Hattardal, Guðbjörg átti Örnólf Ólafsson að Skarði í Ögursveit, Guðrún átti Guðmund Arason í Eyrarsveit, Hjalti var á ýmsum stöðum, barnakennari og hagyrðingur (Vitæ ord. 1829; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.