Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Ólafsson

(1728–14. jan. 1800)

Lögmaður.

Foreldrar: Ólafur Gunnlaugsson í Svefneyjum og kona hans Ragnhildur Sigurðardóttir lögréttumanns að Brjánslæk, Sigurðssonar. Lærði í Skálholtsskóla, stúdent 1754, fór utan s. á., skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 19. dec. s. á., lá við brottrekstri þaðan 1756, vegna áfloga, varð baccalaureus 28. júlí 1758, stundaði ýmislegt, tók lagapróf 19. júní 1769, með 2. einkunn, en hafði 10. mars s. á. orðið varalögmaður sunnan og austan, átti framan af heima í Sauðlauksdal, var stólshaldari í Skálholti 1777–85, og var hann þá orðinn stórskuldugur, fluttist að Meðalfelli 1786 og var þar til æviloka, varð lögmaður að fullu 9. mars 1791 og var það til dauðadags; var dánarbú hans mjög skuldugt, og gáfu sumir ekkjunni upp skuldir, Hann bar gott skyn á lækningar og hjálpaði mörgum fátæklingum. Í Kh. var hann mjög riðinn við stúdentafélagið „Sakir“, einn af stofnöndum þess og stundum formaður („öldungur“). Hann mun eitthvað hafa aðstoðað síra Egil Þórhallason í hinni dönsku þýðingu Jónsbókar, Kh. 1763, þýddi og lét birta í Kh. 1765 garðyrkjurit eftir síra Björn mág sinn Halldórsson í Sauðlauksdal „Korte Beretninger“). Eftir hann er ritgerð, „Noglé Anmærkninger til Jonsbogens danske Oversættelse“, Kh. 1765. Bréfauppköst hans eru varðveitt í Lbs.

Kona (23. sept. 1778): Ragnheiður (d. 16. mars 1831) Finnsdóttir byskups í Skálholti, Jónssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Finnur prófessor og leyndarskjalavörður, Guðríður átti Stefán Pálsson að Oddgeirshólum, Ragnhildur átti síra Einar Pálsson á Reynivöllum (Safn 11; Tímar. bmf. III; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.