Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Árnason

(um 1698–30. júlí 1766)

Prestur.

Foreldrar: Síra Árni Jónsson í Hvítadal og kona hans Ingibjörg, laundóttir Magnúsar lögmanns Jónssonar að Ingjaldshóli. Tekinn í Skálholtsskóla (í efra bekk) 1714, stúdent 1718, fór utan 1721, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 23. dec. s. á., tók guðfræðapróf 27. apr. 1722, með 1. einkunn, var síðan í þjónustu Jóns byskups Árnasonar, vígðist 13. ág. 1724 settur prestur í Breiðavíkurþingum, átti þar heima í Brekkubæ, fekk prestakallið 1726, missti prestskap 3. febr. 1728 vegna barneignar, fekk uppreisn 10. febr. 1730, fekk Miðdalaþing 1734 og bjó að Sauðafelli, fekk Reynivöllu 12. maí 1759 og hélt til æviloka. Í skýrslum Harboes fær hann allgóðan vitnisburð, en er þó talinn málstirður.

Kona (24. ág. 1727). Ingibjörg (f. 1686, d. 1763) Jónsdóttir prests á Gilsbakka, Eyjólfssonar; þau bl. Launsonur hans (með Elínu Bjarnadóttur að Hamraendum, Guðmundssonar): Guðmundur, skurðhagur maður, bl. (HÞ; HÞ. Guðfr.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.