Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Ari Guðmundsson

(8. okt. 1632–25. júlí 1707)

Prestur.

Foreldrar: Guðmundur stúdent og lögréttumaður Arason í Flatatungu og kona hans Guðrún yngri Björnsdóttir á Laxamýri, Magnússonar. F. í Flatatungu. Hefir orðið stúdent úr Hólaskóla líkl. 1657 (talinn hafa setið þar 13 vetur) og um það bil virðist hann hafa gengið í þjónustu Þorkels sýslumanns Guðmundssonar á Þingeyrum.

Vígðist 1661 aðstoðarprestur síra Magnúsar Jónssonar að Mælifelli og fekk það prestakall ári síðar. Árið 1680 varð hann prófastur í Hegranesþingi og hélt því starfi til dauðadags.

Eftir lát Gísla byskups Þorlákssonar boðaði síra Ari til prestastefnu á Flugumýri 5. sept. 1684 og var þá og í fyrstu andstæðingur Jóns byskups Vigfússonar, en síðar sættust þeir, og fór síra Ari fyrir byskup í yfirreið um Hegranesþing 1686. Eftir lát Jóns byskups var síra Ari kvaddur til að vera umsjónarmaður Hólaskóla og var það í 2 ár, til þess er Einar byskup Þorsteinsson tók við, og að honum látnum (1696) gegndi hann officialisstörfum í umboði Björns byskups Þorleifssonar, til þess er hann kom norður um páska 1697. Ýmis önnur virðingarstörf voru honum falin.

Hann var mikill maður vexti og hraustmenni, sem faðir hans.

Talinn hafa verið skáldmæltur og orkt sálmaerindi af testamenti og játningu Þorláks byskups Skúlasonar, en ekki er sá kveðskapur kunnur nú. Til er í ÍB. 168, 8Svo., þýðing hans á 6 hugvekjum eftir Dr. Balthazar Meissner og bænum úr þýzku.

Loks er til annáll eftir hann (Mælifellsannáll) 1678–1702 og er nú prentaður í Ann. bmf.1.

Kona: Ingunn (d. 1706) Magnúsdóttir prests að Mælifelli, Jónssonar.

Börn þeirra: Síra Magnús að Mælifelli, Þorbjörg fyrst kona Jóns Hólaráðsmanns Þorsteinssonar að Nautabúi og síðar kona Stefáns lögréttumanns Sigurðssonar sst., Gróa kona Magnúsar lögréttumanns Gíslasonar frá Silfrastöðum, Guðrún kona Þorsteins lögréttumanns Steingrímssonar, Ingiríður kona Jóns lögréttumanns Steingrímssonar á Bjarnastöðum hjá Flugumýri (bróður Þorsteins) (Ann. bmf. I; Saga Ísl. V; Ævisaga síra Jóns Steingrímssonar; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.