Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Sigurðsson

(1651–8. mars 1707)

Bóndi.

Foreldrar: Sigurður sýslumaður Magnússon á Skútustöðum og kona hans Sigríður Oddsdóttir að Borg, Þorleifssonar. Var í þjónustu Gísla byskups Þorlákssonar fyrir 1670, fekk það ár innheimtu byskupstíunda í Vaðlaþingi, fór til Danmerkur 1671.

Hann var maður vel gefinn, vel máli farinn, gervilegur og stórauðugur, en gerðist mjög drykkfelldur eftir lát f.k. sinnar og barna þeirra allra; kom það einkum fram í hneykslanlegum málaferlum hans og Árna prófessors Magnússonar. Bjó í Bræðratungu frá því um 1680, andaðist í Kh., hafði farið utan 1706.

Kona 1 (29. ág. 1680): Jarþrúður (f. 1651, d. 3. maí 1686) Hákonardóttir sýslumanns í Bræðratungu, Gíslasonar, dó af barnsförum að 4. barni, sem fæddist andvana, og komust hin ekki upp.

Kona 2 (1689): Þórdís (f. 1671, d. 1741) Jónsdóttir byskups að Hólum, Vigfússonar, kölluð kvenna vænst á Suðurlandi.

Börn þeirra: Síra Sæmundur í Miklabæ, Jón að Stóra Núpi, Elín átti Bjarna lögréttumann Brynjólfsson að Móeiðarhvoli, Sigríður d. 1707, Oddur d. 1707. Laundóttir Magnúsar (um 1678) með matselju hans, Ingibjörgu Guðmundsdóttur, Jónssonar: Jarþrúður átti Jón Þórðarson í Laugarnesi (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.