Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Ketilsson

(29. jan. 1732–18. júlí 1803)

Sýslumaður.

Foreldrar: Síra Ketill Jónsson í Húsavík og kona hans Guðrún Magnúsdóttir prests í Húsavík, Einarssonar. Ólst upp hjá Sigmundi lögréttumanni Þorlákssyni í Saltvík, tekinn í Hólaskóla 1745, stúdent 10. maí 1749, gekk síðan í þjónustu Sveins lögmanns Sölvasonar að Munkaþverá, fór utan 1751, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 18. dec. s.á., með góðum vitnisburði, tók heimspekipróf 4. dec. 1752, með 1. einkunn, lagði stund á lögfræði, en tók ekki próf, fekk Dalasýslu 19. febr. 1754 og hélt til æviloka, var fyrsta árið til veru í Hrappsey, fluttist 1755 að Arnarbæli, 1758 að Melum, 1762 að Búðardal og bjó þar til æviloka.

Hann var einn af helztu mönnum sinnar tíðar, umbótamaður hinn mesti í öllum greinum, framfaramaður í jarðyrkju, auðmaður, fjárgæzlumaður mikill og fastur á fé að jafnaði, en sparaði eigi til nauðsynja eða þess, er hann hugði vera til nytja, nokkuð þóttalegur á mannamótum, en viðfelldinn hversdagslega. Manna bezt að sér í flestum greinum og fræðimaður merkur. Hann átti og ágætt bókasafn, bæði prentaðra bóka og handrita. Eftir hann liggja mikil ritstörf, og er þetta prentað: Islandske Maanedstiðender, Hrappsey 1773–S5; Útlegging norsku laga um erfðir, sst. 1773; Búalög, sst. 1775; Kongelige allern. Forordninger og Breve, sst. og Kh. 1776–87; Heiðnir eta hrossakjöt, Hrappsey 1776; Hestabit er hagabót, sst. 1776; Stutt ágrip um ítölu búfjár í haga, sst. 1776; Undirvísun um sauðfjárhirðing, sst. 1778; Norsku lög, þýðing, sst. 1779; Nokkurar tilraunir gerðar með nokkurar sáðtegundir, sst. 1779; Inntak úr forordningum, sst. 1785; Um innilegu búsmala, sst. 1790; ritgerðir í lærdómslistafélagsritum, 4. b. (um ómagaframfæri) og 7. b. (athugasemdir); Athugsemdir við Stjörnu-Odda-draum (aftan við Rímbeglu, 1782); hafði umsjá framan af með Hrappseyjarprentsmiðju, t.d. Skarðsárannálum, og þýddi á dönsku ritgerð Páls Vídalíns um jus patronatus (pr. í Sórey 1771). Í handritum liggur margt eftir hann: Ættartölubækur (í Lbs.), Historisk-kritisk Afhandling om Kirker og Kirkegods (í Lbs. og útlendum söfnum), um tíund (Lbs.), lagaritgerðir, Jónsbókarskýringar, Kritik um dæmi í stóradómi, Lendur maður, Sýslumaður og aðrar nafnbætur (í Lbs.), má og vera málfræði (Lbs.), um stiftamtmenn og amtmenn, ritgerð um Guðmund ríka Arason (Lbs.). Dagbók hans er í Lbs.

Kona 1 (29. sept. 1765): Ragnhildur (f. 1740, d. 6. nóv. 1793) Eggertsdóttir að Skarði á Skarðsströnd, Bjarnasonar.

Börn þeirra: Þorbjörg (f. 1767, d. 1785), Eggert (f. 1772, d. 1785), Skúli sýslumaður að Skarði, Sigmundur í Akureyjum, Karítas átti fyrr Vigfús gullsmið Fjeldsted, en síðar Pál lögsagnara Benediktsson, Ragnheiður átti launbarn með umrenningi einum, giftist síðar (hálfnauðug) Birni Einarssyni í Dagverðarnesi, síra Jón í Hvammi í Norðurárdal, Guðrún átti síra Eggert Jónsson að Ballará, Helga átti Eggert silfursmið Guðmundsson í Sólheimatungu, Sigríður (f. 1781, fór til útlanda, var vel að sér, kenndi börnum, d. óg. og bl.).

Kona 2 (20. okt. 1795): Elín (d. 15. júní 1827) Brynjólfsdóttir í Fagradal, Bjarnasonar, ekkja síra Markúsar Pálssonar að Auðkúlu; þau Magnús bl. (BB. Sýsl.; Þorst. Þorsteinsson: M.K., Rv. 1935; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.