Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Jónsson

(um 1675–11. nóv. 1752)

Bóndi, stúdent.

Foreldrar: Síra Jón Hannesson í Snóksdal og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir að Hóli í Hörðudal, Gíslasonar. Lærði í Skálholtsskóla. Hann varð sekur um 4 frillulífisbrot með 3 stúlkum og því fjórðungsrækur, hið 5. frillulífisbrot varð með konu þeirri, er hann átti síðar.

Hefir verið að Hóli í Hörðudal 1721 og 1722, en útlægur úr fjórðungnum 12 ár (1722–34). bjó þann tíma í Langholti í Borgarfirði. Síðan hefir hann flutzt að erfðaeign sinni Snóksdal, en hann andaðist að Hrafnabjörgum í Hörðudal. Hann var maður vel gefinn, erfði miklar eignir, en fé hans gekk mjög upp.

Kona: Ingibjörg Ólafsdóttir prests í Tröllatungu, Eiríkssonar,

Börn þeirra: Jón eldri í Snóksdal, Árni að Geitastekk, fór utan, varð hermaður, fór víða um heim og hefir skrifað ferðasögu sína, Jón yngri að Reykhólum, Ólafur að Álptavatni, Ingibjörg átti fyrr Pál Björnsson frá Hrafnabjörgum, en síðar Benedikt Ásmundsson, Þorbjörg átti Illuga Þorbergsson að Laugum í Hvammssveit, Anna átti Þorstein smið Bjarnason að Hrafnabjörgum, Sigurður drukknaði, Vigfús var í þjónustu Pingels amtmanns, síðar hjá Schumacher jústitsráði, síðast tollgæzlumaður í Danmörku.

Launbarn Magnúsar (með Jórunni Jónsdóttur, Brandssonar): Guðrún átti Jón Sigurðsson.

Tvö voru launbörn Magnúsar með Sigríði Ólafsdóttur á Kerseyri, Þórðarsonar, og var annað þeirra Árni, var 7 vetur í Skálholtsskóla, vísað þaðan vegna tornæmis, kallaður í háði „sekreteri“, dó utanlands. Launson Magnúsar með Valgerði Gísladóttur, Ásmundssonar: Gísli var undir jökli varð gamall og dó bl. (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.