Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Jónsson

(1642–25. apr. 1694)

Lögmaður.

Foreldrar: Jón sýslumaður Magnússon að Reykhólum og kona hans Jórunn Magnúsdóttir lögmanns að Munkaþverá, Björnssonar.

Er talinn hafa mannazt vel ungur, verið í Hollandi, komið til landsins 1662, fekk s.á. hálfa Strandasýslu og hálfar Strandasýslujarðir, en alla sýsluna 1675, var kjörinn lögmaður á alþingi 1679 (konungsstaðfesting 16. apríl 1681), fekk umsjá með Snæfellsnessýslu og Stapaumboði 1681, sleppti Strandasýslu 1684 og fekk þá Dalasýslu, en 11. mars 1688 Snæfellsnessýslu og Stapaumboð, Hnappadalssýslu 1693, en hafði ýmsa lögsagnara og umboðsmenn fyrir lénum sínum, bjó að Reykhólum frá 1662, á Brimilsvöllum frá 1684, í Mávahlíð frá því um 1687–8, en að Ingjaldshóli líkl. frá 1693. Hann var skýr maður, snarvitur, gestrisinn og höfðinglyndur, auðmaður mikill og fjárgæzlumaður, „héraðsríkur og lagamaður góður. Í sumum handritum eru honum eignaðar lagaritgerðir, en þær munu vera eftir síra Magnús Jónsson að Kvennabrekku, síðar lögsagnara að Sauðafelli. Brot úr dómabók hans er í þjóðskjalasafni.

Kona (1668): Guðrún (f. um 1650, d. 1705) Þorgilsdóttir lögréttumanns á Brimilsvöllum, Jónssonar. Dóttir þeirra: Margrét f.k. Gísla Jónssonar að Reykhólum, síðar í Mávahlíð. Laundóttir Magnúsar lögmanns (f. skömmu eftir brúðkaup hans): Ingibjörg átti síra Árna Jónsson í Hvítadal (Saga Ísl. V; Safn II; BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.