Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Gíslason

(1. jan. 1704–3. nóv. 1766)

Amtmaður.

Foreldrar: Gísli Jónsson að Reykhólum, síðar í Mávahlíð, og kona hans Margrét Magnúsdóttir lögmanns að Ingjaldshóli, Jónssonar. Var eftir lát föður síns fyrst hjá föðurbróður sínum, síra Þórði á Staðastað, síðan í Skálholti hjá Jóni byskupi Vídalín, sem átti föðursystur hans, tekinn í Skálholtsskóla 1718, stúdent 1721, fór utan 1724, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 21. okt. s.á., fekk 9. júlí 1728 alþingisskrifaraembætti, komst ekki til landsins fyrr en vorið 1729, varð lögmaður sunnan og austan 15. febr. 1732, settur amtmaður 8. maí 1752, fekk konungsveiting fyrir því embætti 16. maí 1757, fyrstur Íslendinga, en hafði jafnframt þangað til gegnt lögmannsstörfum, bjó fyrst að Stóra Núpi, þá í Bræðratungu (frá 1736), síðan lengi að Leirá (frá 1745), en síðast á Bessastöðum (frá fardögum 1766). Hann var maður prýðilega vel að sér, hinn hirðusamasti í embætti og manna þjóðhollastur, varð manna fyrstur til að gera tillögur til stjórnarinnar um endurbætur hérlendis í iðnaði o. fl., hóf og sjálfur umbótatilraunir, t. d. á klæðagerð, og studdi fast Skúla landfógeta Magnússon og iðnaðarstofnanirnar. Hann var góður læknir. Bréfabækur hans eru í þjóðskjalasafni.

Kona (2. júlí 1732): Þórunn (f. 18. júlí 1693, d. í ág. 1766) Guðmundsdóttir í Álptanesi, Sigurðssonar.

Dóttir þeirra: Sigríður átti Ólaf stiftamtmann Stefánsson (Útfm., Kh. 1778; Saga Ísl. VI; Ísl. sagnaþ. (Þjóðólfs )I; Safn II; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.