Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Guðmundsson

(1738–1786)

Læknir.

Foreldrar: Guðmundur stúdent og lögréttumaður Lýðsson í Stóra Holti og kona hans Sigríður Loptsdóttir í Flatey, Jónssonar.

Tekinn í Skálholtsskóla 1756, stúdent 12. maí 1760, með ágætum vitnisburði, lærði læknisfræði hjá Bjarna landlækni Pálssyni og tók próf 20. júlí 1763, var landlæknir í utanför Bjarna árið 1765–6, varð fjórðungslæknir í Norðlendingafjórðungi 10. júní 1766. Hann sókti um lausn með eftirlaunum 1775, enda varð hann holdsveikur, fekk 1767 leigulausan bústað í Arnarnesi við Eyjafjörð, en mun síðar hafa búið á Ökrum og síðast á Úlfsstöðum. Stýlabók hans er í Lbs.

Kona: Guðný (f. 1741, d. 19. júlí 1832) Guðnadóttir sýslumanns í Kirkjuvogi, Sigurðssonar; þau bl. Hún varð 1787 þriðja kona síra Magnúsar Jónssonar í Saurbæ í Eyjafirði (Tímar. bmf. XI; Lækn.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.