Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Grímsson

(3. júní 1825–18. jan. 1860)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Grímur Steinólfsson á Grímsstöðum í Reykholtsdal og kona hans Guðrún Þórðardóttir prests að Lundi, Jónssonar. F. að Lundi í Lundarreykjadal. Lærði undir skóla hjá síra Búa Jónssyni á Prestbakka. Tekinn í Bessastaðaskóla 1842, stúdent úr Reykjavíkurskóla 1848, með 2. einkunn (63 st.), en tók próf í guðfræði í prestaskólanum 1850, með 2. einkunn lakari (33 st.), hafði verið umsjónarmaður í latínuskólanum í Rv. haustið 1848 og var til 1851, stundaði kennslu í Rv., studdi þar leiklist, var ritstjóri um tíma (Nýrra tíðinda), fekk Mosfell í Mosfellssveit 13. júní 1855, vígðist 2. sept. s. á. og fluttist þá þangað, hélt til æviloka, andaðist úr taugaveiki. Hann var lipur rithöfundur og hafði hug á mörgu, sinnti jafnt fornfræði (með styrk frá fornfræðafélagi), þjóðsögum sem náttúrufræðum, enda hafði á sumrum á skólaárum sínum verið leiðsögumaður útlendra náttúrufræðinga um landið; hann var og lipurt skáld og hugvitsmaður, bjó t.d. til sláttuvél, vatnsvél, róðrarvél o. fl. Allmikil ritstörf liggja eftir hann; prentað er: Kvöldvaka í sveit, Rv. 1848; Nokkur orð um kartöflur eftir Leplan (þýð.), Rv. 1850; Ný tíðindi (blaðið), Rv. 1851–2; Bónorðsförin, Rv. 1852; Eðlisfræði eftir Fischer, þýðing, Kh. 1852; Mjallhvít eftir bræðurna Grimm, þýðing, Kh. 1853 (og oft pr. síðan), Kennslubók í biblíusögunni eftir Hersleb, þýðing, Rv. 1854; Barndómssaga Krists, þýðing, Rv. 1854, sst. 1903; Smákvæði og vísur, Rv. 1855; Úrvalsrit, Rv. 1925; í tímaritum og blöðum: Lýsing á Sprengisandi í Nýjum félagsritum 1848; Þórður og Ólöf í „Bónda“ 1851; Böðvar og Ásta í „Landstíðindum“ 1851; ritgerð um eðlisfræði í „Þjóðólfi“ 1859; athugasemdir við Egilssögu í Safni Il; með öðrum: Lítil saga um herhlaup Tyrkjans (með Gísla Magnússyni), Rv. 1852; Íslenzk ævintýri (með Jóni Árnasyni), Rv. 1852; Stafrófskver (með Halldóri Friðrikssyni), Kh. 1854 (og síðar).Í handritum er ritgerð um leika í AM. 168, 4to., ritgerðir ýmsar, ræður og kvæði í Lbs. Greinar eftir hann eru í Skírni og Reykjavíkurpósti.

Kona (28. sept. 1848): Guðrún (f, 18. nóv. 1815, d. 19. okt. 1880) Jónsdóttir kennara á Bessastöðum, Jónssonar. Dóttir þeirra: Ragnheiður (f. 16. febr. 1850, d. 19. ág. 1909 í Milton í Dakota), óg. og bl. (Vitæ ord. 1855; Kvæði, Rv. 1925; Sunnanfari V; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.