Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Einarsson

(1734–2. maí 1819)

Prestur.

Foreldrar: Einar sýslumaður Magnússon í Strandasýslu og kona hans Elín Jónsdóttir sýslumanns að Hamraendum, Jónssonar. Lærði í Skálholtsskóla, fekk 5. febr. 1762 uppreisn fyrir barneign með konu þeirri, er hann átti síðar. Bjó fyrst á Óspakseyri, fekk Árnes 10. júlí 1764, vígðist 29. s. m., fluttist þangað ekki og afsalaði sér því prestakalli, fekk þá Gufudal 18. júlí s. á., fluttist þangað vorið 1781, fekk Kvennabrekku 2. apr. 1790, í skiptum við síra Erlend Hannesson, fluttist þangað vorið 1791, dæmdur frá prestskap 3. júní 1796 fyrir óskírlífisbrot með vinnukonu sinni, Málmfríði Benediktsdóttur, er hann hafði árinu fyrir, eftir barneignina, gefið saman við Eyvind Bjarnason í Kirkjuskógi. Hann var búmaður góður og sérdrægur, kom sér ekki vel, enda svarri við drykkju, daufur kennimaður, en hafði söngrödd mikla. Bjó að Stóra Skógi, eftir að hann missti prestskap, en síðast í Syðra Skógskoti og andaðist þar, og var hann þá orðinn mjög bágstaddur.

Kona 1 (um 1762). Helga (f. um 1739, d. 6. ágúst 1791) Oddsdóttir prests í Keldnaþingum, Þórðarsonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Einar í Brekkubæ við Hellna, Magnús að Stóra Fjalli, Jón beykir í Reyðarfirði, Hallgerður átti fyrst launbarn, giftist síðan síra Jóni Gíslasyni síðast á Breiðabólstað á Skógarströnd, Kristín átti fyrst launbarn, giftist síðan Guðmundi hreppstjóra Jónssyni á Þorbergsstöðum, Sigríður f., k. Hallgríms Sigurðssonar að Gilsfjarðarmúla, Margrét átti fyrr Jón Bjarnason úr Bæ í Bæjarnesi, Jónssonar, síðar Brynjólf Bjarnason á Mjóabóli og Geitastekk, Ingimundarsonar.

Kona 2 (24. sept. 1799): Gróa Sigurðardóttir að Gilsfjarðarmúla, Jónssonar prests í Saurbæjarþingum, Jónssonar, Dóttir þeirra: Guðbjörg átti Jón Andrésson í Skógskoti, Þórólfsstöðum og Öxl, þjóðhagasmið, sem sakaður var um pPeningasmíð, en sýknaður af þeim málum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.