Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Einarsson

(1706–23. júní 1785)

Prestur.

Foreldrar: Einar lögréttumaður Magnússon í Haga í Holtum og kona hans Guðrún Oddsdóttir lögréttumanns í Haga, Magnússonar, Tekinn í Skálholtsskóla 1718, stúdent 1727, var síðan í þjónustu Jóns byskups Árnasonar, vígðist 4. júlí 1728 aðstoðarprestur síra Jóhanns Þórðarsonar í Laugardælum, bjó á Arnarstöðum 1733–5, fekk Kaldaðarnes 1734, setti bú í Kálfhaga 1735, fekk Garpsdal 1742, Fljótshlíðarþing 1745, fluttist þangað 1746, lét af prestskap 1781, bjó í Butru, en fluttist síðast að Hlíðarendakoti og andaðist þar. Heldur er daufur vitnisburður Finns byskups um kennimannshæfileika hans 1. sept. 1757; hefir hann verið í meðallagi vel kynntur, og fór af honum heldur kvennaorð og kæruleysi í þeim efnum. Kærður var hann fyrir að hafa rofið eiginorð við stúlku 1729, en það mál eyddist; hórdómssök var hann borinn af vinnukonu sinni 1734, en hann sór fyrir 1735, en prófastur var sektaður fyrir þá eiðtöku; enn 1771 varð hann að ganga að því að lúka bónda einum (Sveinbirni Þorleifssyni í Hallskoti, síðar í Snotru, Landeyjum og Kirkjulæk) sárabætur vegna konu hans, en til er áður (2. júní 1770) kynleg lögfesta á konu þessa manns fyrir síra Magnúsi og öðrum,

Kona 1 (1730): Helga Guðmundsdóttir lögréttumanns að Miðfelli, Jónssonar (og eru þau skilin að samvistum 1746).

Börn þeirra: Þórunn átti Einar Guðmundsson í Vatnsdal í Fljótshlíð, Helgi í Vestmannaeyjum, Halla, Guðrún átti launbarn með Bjarna Ásgeirssyni í Steingrímsfirði, og vildi síra Jón Pálsson á Stað í Steingrímsfirði ganga að eiga hana, en fekk ekki konungsleyfi til, þótt hann gerði ítrekaðar tilraunir til þess.

Kona 2: Margrét Guðmundsdóttir í Vatnsdal, Jónssonar.

Sonur þeirra: Jón (d. 26 ára).

Kona 3: Maren (f. um 1736) Sigurðardóttir frá Kirkjulæk.

Dóttir þeirra: Úlfhildur átti Jón nokkurn í Þykkvabæ. Maren ekkja síra Magnúsar varð síðar s.k. síra Jóns Henrikssonar í Keldnaþingum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.