Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Bergsson

(15. nóv. 1799 [1798, Bessastsk.]–1. maí 1893)

Prestur.

Foreldrar: Síra Bergur Magnússon að Hofi í Álptafirði og kona hans Guðrún eldri Jónsdóttir sýslumanns að Hoffelli, Helgasonar. F. að Stafafelli. Lærði hjá föður sínum. Tekinn í Bessastaðaskóla 1819, stúdent 1824, með vitnisburði í betra lagi, þá einn vetur hjá foreldrum sínum, síðan 1 ár skrifari hjá Tvede sýslumanni, síðar land- og bæjarfógeta, síðan aftur hjá foreldrum sínum, vígðist 4. apr. 1829 aðstoðarprestur síra Sveins Péturssonar að Berufirði, fekk Stöð 20. okt. 1835, Kirkjubæ í Tungu 13. apr. 1852, Heydali 12. okt. 1868, fekk lausn 18. sept. 1889 frá fardögum 1890, fluttist þá að Gilsárstekk og andaðist þar, varð 14. apr. 1885 r. af dbr. Fær mikið lof í visitatíu Helga byskups Thordersens 22. júlí 1850.

Kona 1: Vilborg (d. 1862) Eiríksdóttir hreppstjóra að Hoffelli, Benediktssonar.

Börn þeirra alls 14, fimm dóu ung, en meðal þeirra, sem upp komust, má nefna þessi: Eiríkur bókavörður í Cambridge, Helgi varð úti 1881, ókv., Magnús trésmiður, Jón trésmiður, Þórunn varð s. k. síra Jóns Austfjörðs Jónssonar í Kirkjubæ í Tungu, en átti síðar Stefán Einarsson á Sörlastöðum í Seyðisfirði, Þorbjörg átti Gísla Högnason.

Kona 2: Ragnheiður Jónsdóttir að Gilsá, Björnssonar; þau bl. (Bessastsk.; Vitæ ord. 1829; Kirkjublaðið, 3. árg.; Bjarmi, 8. árg.; SGrBf.; HÞ.; Saga Eiríks Magnússonar eftir Stefán Einarsson; Óðinn XV og XXII).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.