Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Magnús Arason

(– – 19. jan. 1728)

„Ingeniörkapteinn“.

Foreldrar: Ari sýslumaður Þorkelsson í Haga og kona hans Ástríður Þorleifsdóttir. Tekinn í Skálholtsskóla 1700, stúdent 1703, var síðan 2 vetur í Selárdal, hjá síra Páli Björnssyni, til að fullkomna sig, fór utan 1705, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 21. okt. 1705, lagði sig einkum eftir stærðfræði og komst í þjónustu hins nafnkunna stærðfræðings Ole Römers, eru og pr. eftir hann 5 smáritgerðir stærðfræðilegs efnis (disputationes eða dissertationes) í Kh. 1707–10, gekk 1710 í herþjónustu og varð að lokum „ingeniörkapteinn“ og „oberkonduktor“ þar, sendur til Íslands 1721 og skyldi mæla landið og gera uppdráttu af því, sendi nokkura uppdráttu til Danmerkur, en Fuhrmann amtmaður fekk og úr dánarbúi hans uppdráttu af Borgarfjarðar.-, Snæfellsnes-, Dala- og Barðastrandarsýslum, hefir og samið skýrslu um sólmyrkva 24. júlí 1721, og mun hún nú glötuð.

Hann var maður skarpgáfaður, tungumálamaður mikill og stærðfræðingur, orkti bæði á latínu og ísl. (sjá Lbs.), en virðist hafa verið talsvert drykkfelldur og þá órósasamur. Hann drukknaði við Hrappsey, ókv.

Í Selárdal átti hann launbarn með Helgu Árnadóttur (dótturdóttur síra Páls Björnssonar); í Kh. átti hann og laundóttur, sem hét Anna Magdalena (d. í jan. 1750), giftist þar manni, sem Muhle hét, og virðast þau hafa verið bl. (Saga Ísl. VI; JGrv. Coll.; JThorch. Spec.; Þorv. Th. Landfrs.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.