Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Lárus Benediktsson

(29. maí 1841–3. febr. 1920)

Prestur.

Foreldrar: Síra Benedikt Þórðarson í Selárdal og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir prests í Hjarðarholti, Benediktssonar.

F. að Snæfjöllum. Lærði undir skóla 2 ár hjá Jóni Þorkelssyni (síðar rektor). Tekinn í Reykjavíkurskóla 1858, stúdent 1864, með 2. einkunn (66 st.), próf úr prestaskóla 1866 með 1. einkunn (50 st.). Vígðist 26. sept. 1866 aðstoðarprestur föður síns, fekk prestakallið 7. maí 1873, við uppgjöf hans, fekk þar lausn frá prestskap 26. febr. 1902, frá fardögum þá, fluttist síðan til Rv. og var þar til æviloka. Var framkvæmdamaður og hagsýnn. Var hagmæltur.

Kona (10. sept. 1878): Ólafía Sigríður Ólafsdóttir prests á Mel, Pálssonar, ekkja síra Páls Jónssonar að Hesti.

Börn þeirra, sem upp komust: Ólafía Guðrún átti Björn stúdent Magnússon frá Hnausum, Inga (Ingveldur Lára) kennari í Rv., Ó25 lafur lagaprófessor í Rv., Benedikta Ingveldur átti síra Magnús guðfræðaprófessor og alþm. Jónsson, Áslaug átti Þorstein sýslumann í Dalasýslu Þorsteinsson (Bjarmi 1920; BjM. Guðfr.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.