Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Lárus (Halldór) Halldórsson

(10. jan. 1851–24. júní 1908)

Prestur.

Foreldrar: Síra Halldór Jónsson að Hofi í Vopnafirði og f. k. hans Gunnþórunn Gunnlaugsdóttir dómkirkjuprests í Rv., Oddssonar. Lærði í Reykjavíkurskóla, stúdent 1870, með 1. eink. (92 st.), próf úr prestaskóla 1873, með 1. eink. (48 st.).

Varð þá byskupsskrifari í Rv.

Fekk Valþjófsstaði 17. jan. 1877, vígðist 13. maí s. á., leystur frá embætti 28. júní 1883, vegna þess að hann tók upp breytingar í kirkjusiðum. Prófastur í Norður-Múlasýslu 1879–83.

Var fríkirkjuprestur á Reyðarfirði 1886–99 (bjó á Kollaleiru), fríkirkjuprestur í Rv. 1899–1903. Alþm. Sunnmýl. 1886–91, stundakennari í latínuskólanum 1903–4, endurskoðunarmaður landsreikninga 1904–5. Eftir að hann kom til Rv. stýrði hann (lengstum með öðrum) Aldarprentsmiðju, en seldi prentverkið 1907. Talinn mjög vel gefinn, skáldmæltur og frækinn glímumaður. Var ritstjóri blaðs, „Fríkirkjunnar“, 1899–1902; þýddi: Frá valdi Satans til guðs, Rv. 1904, og (með öðrum) „Heimilisvinurinn“, Rv. 1905. Sálmar eru eftir hann í blöðum og sálmabókum.

Kona (6. maí 1876): Kirstín Katrín Pétursdóttir söngkennara, Guðjónssonar.

Börn þeirra: Guðrún skáldkona átti síra Sigurbjörn Á. Gíslason í Rv., Halldór hraðritari, Pétur fulltrúi í skrifstofu alþingis, Valgerður f. k. síra Þorsteins Briems í Görðum á Akranesi, (BjM. Guðfr.; Óðinn V; Bjarmi, 2. árg.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.