Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Lárentíus Kálfsson

(10. ágúst 1267–16. apr. 1330)

Byskup að Hólum 1323–30.

Foreldrar: Kálfur (systurson Þórarins prests kagga á Völlum) og Þorgríma Einarsdóttir, og bjuggu þau um tíma að Efra Ási í Hjaltadal. Var fyrst að námi hjá síra Þórarni, ömmubróður sínum, en síðan Jörundi byskupi að Hólum, vígðist prestur 1288 og var þá rektor að Hólum 3 ár, hélt Háls í Fnjóskadal 1292–3, fór síðan aftur að Hólum; varð síðan sundurþykki með honum og byskupi; fór hann þá í Skálholt, til Ára byskups, en til Noregs 1294 og var með Jörundi erkibyskupi.

Var síðan 1307 (með öðrum manni) sendur til Íslands til eftirlits kristnihalds, kom til Niðaróss aftur haustið 1308; var þá tekinn af kórsbræðrum þar og settur í varðhald; bar til þess mjög undirróður Jörundar Hólabyskups. Var hann síðan sendur til Íslands, til Hóla, en fór síðan að Þykkvabæ í Veri og kenndi þar, síðan að Munkaþverá að kennslu, þá að Hólum hjá Auðuni byskupi rauða, að sama starfi, fekk byskupsdæmið eftir hann og hélt til æviloka.

Var manna bezt að sér í kirkjulögum, siðavandur, ölmusugjarn og þó fjárgæzlumaður. Setti Prestaspítala að Kvíabekk.

Gerði sér engan mannamun í umvöndunum, og létu höfðingjar sér lynda.

Sonur hans: Árni prestur og munkur (Dipl. Isl.; Isl. Ann.; Ob. Isl.; Bps. bmf. I; Safn 1).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.