Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Loptur Rafnkelsson

(1703–1752)

Prestur.

Foreldrar: Rafnkell Þorláksson í Miðbæli undir Eyjafjöllum og kona hans Ragnhildur Tómasdóttir. Vorið 1727 er hann óvígður, en hefir vígzt skömmu síðar aðstoðarprestur síra Þorsteins Oddssonar í Holti undir Eyjafj., bjó að Skála, missti prestskap 15. júlí 1735 vegna of bráðrar barneignar með konu sinni, en fekk Kross seint í sama mánuði, varð veikur vorið 1747 og gat síðan lítt sinnt prestsverkum, og bættist á ofan sturlan á geðsmunum, svo að hann varð fyrir kærum fyrir ósæmilega framkomu, dæmdur frá kjóli og kalli 16. júlí 1750, fór utan 1751, til þess að fá hæstaréttarstefnu í málum sínum, en andaðist í Kh. snemma árs 1752. Í skýrslum Harboes er hann talinn ólærður, mjög ágjarn og jafnvel okrari.

Ræða er eftir hann í Lbs. 36, 4to.

Kona (7. nóv. 1734): Guðbjörg (d. í mars 1765 að Keldum á Rangárvöllum, en þá jörð hafði maður hennar keypt 1749) Pálsdóttir á Steinsmýri, Magnússonar.

Börn þeirra: Páll gullsmiður að Minni Vatnsleysu (d. 6. júní 1828), Þuríður eldri átti Jón Þórðarson í Junkaragerði, Þuríður yngri átti Árna að Selalæk Ormsson prests að Reyðarvatni, Snorrasonar, Jón (d. 1805), Ragnhildur átti fyrr Odd Brandsson í Vatnsdalskoti í Fljótshlíð, síðar Runólf Þorgeirsson frá Arnardrangi, Elín átti Jón yngra Þorgilsson úr Landeyjum, Valgerður átti Nikulás á Rauðnefsstöðum Eyvindsson duggusmiðs, Jónssonar, Þórunn átti fyrr Eyjólf Þórarinsson að Miðhúsum í Hvolhreppi, varð síðan s.k. Guðmundar eldra Nikulássonar í Fljótsdal í Fljótshlíð, Gróa (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.