Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Loptur Guttormsson, ríki

(– – 1432)

Hirðstjóri norðan og vestan, skáld.

Foreldrar: Guttormur Ormsson (lögmanns að Skarði, Snorrasonar) og kona hans Sofía Eiríksdóttir á Svalbarði, Magnússonar. Var hirðstjóri norðan og vestan 1427, hafði og ýmis prestsetur nyrðra að léni um tíma, ráðsmennsku Hólastóls og sýslur. Var maður stórauðugur og mikils metinn.

Mun hafa verið herraður; hafði höggorm í skjaldarmerki sínu.

Kvæði hans eru pr. í Kvæðasafni bmf. Bjó á Möðruvöllum í Eyjafirði, en hafði bú víðar.

Kona: Ingibjörg Pálsdóttir á Eiðum, Þorvarðssonar.

Börn þeirra: Þorvarður á Möðruvöllum, Ólöf átti Björn hirðstjóra ríka Þorleifsson, Eiríkur slógnefur á Grund, Sofía átti Árna Þorleifsson í Fagradal. Áður en hann giftist, átti hann börn nokkur við Kristínu Oddsdóttur lögmanns lepps, Þórðarsonar, og bjó með henni; eru tilnefnd: Skúli, Ormur hirðstjóri, Sumarliði; Ólafur var og sonur Lopts (líkl. með systur Þorsteins lögmanns Ólafssonar). Kristín Oddsdóttir átti síðar Höskuld Runólfsson (Dipl. Isl.; BB. Sýsl.; Kvæðasafn bmf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.