Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Krákur Sveinsson

(um 1648– ? )

Bóndi, stúdent.

Foreldrar: Síra Sveinn Jónsson á Barði og kona hans Björg Ólafsdóttir prests á Breiðabólstað í Vesturhópi, Erlendssonar. Lærði í Hólaskóla (er þar veturinn 1668–9) og stúdent þaðan (um 1670). Talinn gáfumaður, vel að sér, kenndi t.d. undir skóla, atorkumaður að hverju, sem hann gekk. Bjó lengi í Holti í Fljótum (þar er hann 1700), en að Yzta Mói er hann 1709, er enn á lífi 1717, varð að síðustu blindur.

Kona: Valgerður Guðmundsdóttir, Einarssonar (af ætt Þorláks byskups).

Börn þeirra: Sveinn stúdent, Guðmundur á Bakka í Fljótum, Guðmundur annar (bl.), Ólafur (bl.), Benedikt (bl.), Björg átti Sigurð Þorláksson, Ragnhildur átti Halldór bókbindara Sigurðsson (prests að Bægisá, Gottskálkssonar). Laundóttir Kráks var Sigríður (f. um 1685) átti Eyjólf Sigurðsson, Þórðarsonar prests að Myrká, Sigfússonar; átti síðar (um 1689) launbarn með annarri, sjá sakeyrisreikning Hegranesþings 1689–90 (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.