Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Kristján Kristjánsson

(1817–17. febr. 1900)

Hreppstjóri o. fl.

Foreldrar: Kristján Ólafsson að Dunki og kona hans Guðrún Bjarnadóttir sst., Benediktssonar. Bjó á ýmsum býlum, þ.á.m. að Dunki, þess í milli var hann (1854–72) ráðsmaður í Hítardal, og voru verk hans þar svo að ágætum höfð, að hann var síðari árin nefndur „Hítardalsráðsmaður “. Eins voru orðlagðar framkvæmdir hans í sveitarstjórn, þótt stórbrotinn þækti og ráðríkur.

Frumkvöðull ýmissa merkra athafna, búnaðarfélags í Hraunhrepp o.fl. Vel gefinn maður og hagur til munns og handa, drenglyndur, hreinskiptinn og stórhöfðinglyndur.

Kona (11. júlí 1842): Steinunn Magnúsdóttir að Dunki, Eiríkssonar.

Synir þeirra: Kristján Einar í Hraundal syðra, Jónas að Straumfirði (Óðinn XXIV).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.