Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Kristján (Klingenberg) Skúlason Magnusen

(5. dec. 1801–3. júlí 1871)

Sýslumaður.

Foreldrar: Skúli sýslumaður Magnússon að Skarði á Skarðsströnd og kona hans Kristín Bogadóttir í Hrappsey, Benediktssonar. Var frá því á öðru ári í fóstri í Rauðseyjum hjá Einari dbrm. Ólafssyni, fór 1816 í kennslu til síra Páls Hjálmarssonar á Stað á Reykjanesi, en síðast hjá síra Helga síðar byskupi Thordersen, stúdent frá honum úr heimaskóla 1823, fór utan 1825, lagði sig þegar eftir danskri lögfræði og lauk þar prófi 2. maí 1827, með 1. einkunn í báðum prófum, vann síðan í rentukammeri, fekk Snæfellsnessýslu 25. maí 1828, var fyrst í Stykkishólmi, bjó í Bjarnarhöfn 1 ár (1830–1), en síðan á Narfeyri, gegndi amtmannsstörfum í Vesturamti frá 1. sept. 1834 til 1. júní 1835, í fjarveru Bjarna Þorsteinssonar, fekk Dalasýslu 7. okt. 1837, tók við næsta vor, gegndi og sýslustörfum í Strandasýslu frá 18. júlí 1847 til hausts 1849, gegndi amtmannsstörfum sumarið 1851, meðan Páll Melsteð sat á þjóðfundinum, fekk lausn frá embætti 10. okt. 1859, frá fardögum 1860, var samt settur sýslumaður í Strandasýslu frá því um vorið 1860 þangað til í júlí 1861; í ferðalögum Boga setts amtmanns Thorarensens 1861 og 1862, gegndi hann og störfum hans. Bjó að Skarði á Skarðsströnd og andaðist þar.

Sat á alþingi 1845 og 1849 og var þá varaþingmaður Snætfellinga. Varð félagi í fornfræðafélaginu 24. jan. 1843, hlaut kammerráðsnafnbót 25. maí 1848, heiðursfélagi hins ísl. bmf. 29. apr. 1858. Hann átti deilur við þá feðga síra Eggert Jónsson að Ballará og síra Friðrik Eggerz, venzlamenn sína og frændur, fekk konungsleyfi 6. apr. 1841 til þess að nota ekki prestþjónustu þeirra.

Kona (24. sept. 1830): Ingibjörg (f. 27. dec. 1812, d. 22. nóv. 1899) Ebenezersdóttir sýslumanns í Hjarðardal, Þorsteinssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Elinborg átti síra Jónas Guðmundsson að Staðarhrauni, Ebenezer, Skúli Theodór í Frakkanesi, Bogi timburmaður, Kristín Guðrún átti Böving héraðsfógeta í Danmörku (Tímar. bmf. 1II; BB. Sýsl.; Sunnanfari XI; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.