Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Kolbeinn Þorsteinsson

(1731– í júní 1783)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Þorsteinn Kolbeinsson að Tungufelli og kona hans Guðrún Hallvarðsdóttir í Efra Seli í Ytra Hreppi, Halldórssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1746, stúdent 12. okt. 1750, með ágætum vitnisburði. Var við barnakennslu 1 ár að Setbergi, 4 ár á Gilsbakka, djákn á Staðastað veturinn 1754–5, fekk Sandfell 17. mars 1757 (án þess að hafa sókt um það), vígðist 31. maí s. á., varð (með leyfi byskups) 1759 aðstoðarprestur síra Jóns Jónssonar á Gilsbakka, fekk Miðdal 1765 og hélt til æviloka, var holdsveikur síðustu árin. Finnur byskup segir 1779 (er hann sókti um Arnarbæli), að hann sé gáfumaður, skarpvitur og iðjusamur. Hann var og listamaður, hugvitssamur og skáldmæltur (sjá Lbs.). Pr. er eftir hann latínukvæði ásamt latínukvæði síra Gunnars Pálssonar: Charis Islandica, Kh. 1776; enn fremur latnesk þýðing Passíusálma síra Hallgríms Péturssonar („„Psalmi passionales“), Kh. 1778, „Gilsbakkaþula“ (pr. í Huld V).

Kona (um 1759) Arndís (d. 1. sept. 1814, 82 ára) Jónsdóttir prests á Gilsbakka, Jónssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Þorsteinn fáráðlingur (d. um tvítugt), Jón eldri kaupmaður í Stykkishólmi, Jón yngri varð beykir, fór utan, komst til Vesturindía, var síðan í Kh., síra Eyjólfur á Eyri í Skutulsfirði, Guðrún eldri átti fyrr síra Sigurð aðstoðarprest Ólafsson í Miðdal, en síðar Eirík dbrm. Vigfússon að Reykjum á Skeiðum, Guðrún yngri (skáldmælt) átti Einar Bjarnason í Bryðjuholti, Margrét átti fyrst Þórð stúdent Sæmundsson (þau bl.), varð síðan s.k. síra Hílaríusar Illugasonar að Mosfelli í Grímsnesi (þau bl.), síðast miðkona síra Jóns Jónssonar að Klausturhólum, Halldóra s. k. Árna Þorleifssonar í Kalmanstungu (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.