Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Kolbeinn Arnórsson, ungi

(1208–22. júlí 1245)

Goðorðsmaður á Víðimýri. Foreldrar og forfeður: sjá Arnór Tumason.

Var með föður sínum í Noregi 1221, kom aftur 1224 og fekk þá arfleifð sína. Var í Rómferð 1235–6, hitti þá Hákon konung gamla, en gekk honum ekki á hönd, þá né síðar. Var höfðingi Skagfirðinga til æviloka, harðfengur maður og vel til forustu fallinn. Með styrk Gizurar Þorvaldssonar vann hann sigur í Örlygsstaðabardaga 21. ágúst 1238, og féllu þá andstæðingar hans, Sighvatur Sturluson og Sturla, sonur hans, umboðsmaður konungs, en Kolbeinn varð yfirmaður í Norðlendingafjórðungi. Vann sigur á Þórði kakala Sighvatssyni í sjóorrustu á Húnaflóa 25. ág. 1244, en naut þess lítt, með því að brjóstmein, sem hann hafði hlotið, ágerðist og varð banamein hans.

Kona 1 (1228): Hallbera Snorradóttir lögsögumanns og skálds, Sturlusonar, er áður hafði verið gift Árna óreiðu í Brautarholti Magnússyni og skilið við hann.

Þau Kolbeinn slitu og samvistir, enda varð hún sjúk og andaðist skömmu síðar (17. júlí 1231).

Kona 2 (1231): Helga Sæmundsdóttir í Odda, Jónssonar. Eigi er getið, að Kolbeinn ætti börn (Sturl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.