Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Högni Ámundason

(um 1649–5. júní 1707)

Prestur.

Foreldrar: Ámundi lögréttumaður Þormóðsson í Skógum undir Eyjafjöllum og kona hans Solveig Árnadóttir í Saurbæ á Kjalarnesi, Eyjólfssonar. Lærði 2 ár undir skóla hjá síra Þorsteini Jónssyni í Holti, var síðan 8 ár í Skálholtsskóla, stúdent um 1674, fekk Eyvindarhóla í júlí 1686, vígðist 18. júlí s. á. og hélt til æviloka, andaðist í bólunni miklu. Talinn ljúfmenni, örlátur og höfðingi að rausn, sem móðir hans.

Kona: Þórunn (f , um 1660, d. í bólunni miklu 1707) Torfadóttir prests í Gaulverjabæ, Jónssonar.

Börn þeirra: Einar sterki í Skógum, Benedikt lögréttumaður í Skógum, Þórður d. af nasablæðingum, ókv. og bl. (Erfiljóð um hann eftir síra Ólaf Ólafsson að Eyvindarhólum, síðast kirkjuprest í Skálholti, ÍB. 42, 4to., og Ny kgl. Saml. 139 A, 4to.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.