Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Högni Sigurðsson

(11. ágúst 1693–7. júlí 1770)

Prestur.

Foreldrar: Síra Sigurður Högnason í Einholti og kona hans Guðrún Böðvarsdóttir prests á Valþjófsstöðum, Sturlusonar.

Tekinn í Skálholtsskóla 1706 (var heima veturinn 1707–8), stúdent 12. apríl 1710, vígðist líkl. 1713 (fremur en 1714) aðstoðarprestur föður síns, fekk Kálfafellsstað 18. nóv. 1717, fekk veiting fyrir Stafafelli 29. jan. 1726, tók við vorið 1727, hafði verið kosinn prófastur í Skaftafellssýslu 1722, skipaður 17. mars 1723 (gegn mótmælum sínum), en hafði áður aðstoðað föður sinn í prófastsverkum; nokkurt þjark átti hann þessi ár við suma þar eystra, einkum Jón sýslumann Ísleifsson að Felli. Fekk Breiðabólstað í Fljótshlíð að konungsveitingu 1. maí 1750 (fyrstur ósigldra manna, og hefir vafalaust átt það að þakka stuðningi Jóns Thorchilliuss, fyrrum rektors, og Harboes byskups), fluttist þangað s. á. Varð þá þegar mikið ósamþykki með honum og flestum sóknarbændum, og kom upphaflega til af ólöglegu húsrofi hans hjá leiguliða sínum; varð hann að biðja söfnuðinn opinberlega fyrirgefningar 1. ágúst 1751, en óánægjan hélzt eigi að síður; þó náði hann smám saman sættum við suma sóknarbændurna, en margir vildu eigi hafa þjónustu hans, dómar gengu honum þó í vil, og sátt virðist hafa á komizt að fullu 13. febr. 1752. Hann hafði fengið síra Stefán, son sinn, sér til aðstoðarprests, meðan hann var á Stafafelli, og hafði hann í þeirri stöðu á Breiðabólstað, en gerði samning við hann 1. júní 1763 um afhending prestakallsins, en var samt sjálfur staðarhaldari til æviloka. Í skýrslum Harboes er hann talinn mikils virtur að þekkingu réttarfars, en eins og dregin í efa réttsýni hans, en þó hefir Harboe stutt hann.

Ólafur byskup Gíslason hælir honum á hvert reipi í yfirreiðarskýrslu 10. apríl 1749, og er enginn efi á, að hann hefir verið mikilhæfur maður, en nokkuð ágengur. Hann þýddi spurningakver („Sannleika guðhræðslunnar“, „Ponta“) eftir Erik Pontoppidan, pr. í Kh. 1746 og oft síðar.

Kona (1718): Guðríður (f. 1694, d. 31. okt. 1762, sinnti lækningum) Pálsdótir yngsta að Sólheimum, Ámundasonar. Þau áttu 17 börn.

Synir þeirra 8 urðu prestar, og voru þeir á Breiðabólstað á Jónsmessu 1760 í fullum prestskrúða, en síra Högni sjálfur hinn níundi; er og sagt, að þeir hafi allir komið hempuklæddir á prestastefnu á alþingi, og hlýtur það eftir öllum atvikum að hafa verið sama sumar. Þessi komust upp: Síra Páll á Torfastöðum, Hólmfríður átti Þorvarð Kristjánsson á Starmýri, Þórunn (d. bl. 4. okt. 1802), síra Halldór í Meðallandsþingum, síra Stefán á Breiðabólstað, Valgerður átti launbarn, giftist síðan Guðbrandi Eiríkssyni á Geirlandi, Solveig (d. bl. 22 ára), síra Böðvar í Guttormshaga, Guðrún átti launbam, giftist síðan Þórði Jónssyni að Syðri Reykjum, síra Sigurður að Ásum, síra Þórður í Kirkjubæ í Tungu, síra Ögmundur að Krossi, síra Árni í Steinsholti, Guðrún (önnur, d. bl. úr holdsveiki), Elín átti Sigmund Bjarnason að Forsæti í Landeyjum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.