Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Högni Jónsson

(– –um 1648)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Egilsson í Stafholti og kona hans Valgerður Halldórsdóttir í Saurbæ á Kjalarnesi, Ormssonar. Hann er orðinn prestur í Stóra Dal undir Eyjafjöllum 1602, bjó á Seljalandi og er þar enn haustið 1616, en hefir þá fengið Stafafell, var prófastur í Skaftafellsþingi (er orðinn það a. m. k. 1629), var dæmdur frá kjóli og kalli fyrir hórdómsbrot, en hafði áður átt barn í frillulífi. Hann hafði Bjarnanesumboð frá því um 1621–2 og fekk 1622 frá hirðstjóra umráð kristfjárjarðarinnar Búlandsness. Eftir að hann missti prestskap, bjó hann í Bæ í Lóni, er á lífi 17. sept. 1648, en d. fyrir 16. sept. 1651. Hann hefir verið dugandi maður og mikils metinn, er talinn hraustmenni að burðum.

Kona: Herdís Nikulásdóttir sýslumanns á Seljalandi, Björnssonar, ekkja Halldórs Marteinssonar (byskups, Einarssonar) í Álptanesi; þau síra Högni bl. Launsonur hans (með Sigríði Bjarnadóttur, sjá sakeyrisreikninga Skaftafellsþings 1636–7T): Bjarni í Bæ í Lóni; gaf faðir hans honum löggjafir, sem hann fremst mætti að lögum, og nefndi til 33 hundr. í fasteignum, 18. júlí 1636. Þetta var átalið eftir lát síra Högna, kom til alþingis 1651, og þókti gjöfin of há að lögum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.