Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Högni Einarsson

(25. nóv. 1805–24. nóv. 1832)

Stúdent.

Foreldrar: Einar stúdent Högnason í Ytri Skógum undir Eyjafjöllum og kona hans Ragnhildur Sigurðardóttir prests í Reynisþingum, Jónssonar. Nam skólalærdóm hjá síra Árna Helgasyni, sem tekið hafði hann til fósturs, stúdent frá honum úr heimaskóla 13. júní 1825, skrifari Steingríms byskups Jónssonar í Laugarnesi, fór utan 1828, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 22. okt. s.á., með 2. einkunn, lauk öðru lærdómsprófi næsta ár, með 2. einkunn og lagði stund á lögfræði. Hann gerðist nokkuð drykkfelldur, og bar dauða hans að í veitingahúsi með þeim hætti, að honum var hrundið á heitan ofn, og rotaðist hann þegar, en samlandar hans 2, er þar voru, tóku hann síðan, vörpuðu líkinu í Holmens Kanal, og þar fannst það nokkurum vikum síðar.

Hann virðist hafa verið skáldmæltur, og eru nokkur ljóðmæli með hendi hans á latínu og Íslenzku í Lbs. 701, 8vo.

Hann var sagður trúlofaður Guðrúnu Grímsdóttur prests að Helgafelli, Pálssonar, uppeldisdóttur Steingríms byskups, og áttu þau barn saman 1828; það dó ungt, en hún átti síðar Guðlaug Jónsson Matthiesen í Öxney (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.