Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hálfdan Rafnsson

(um 1581–15. nóv. 1665)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Rafn Sigurðsson og kona hans Skolastika Gamalíelsdóttir prests á Stað í Hrútafirði, Hallgrímssonar. Tók við Undornfelli 24. maí 1612 og hélt til æviloka, átti raunar barn í hórdómi um 1623 með Sigríði Árnadóttur (sjá sakeyrisreikninga Húnavatnsþings 1623–4). Í sumum ritum er talið, að hann hafi vígzt 1605 og gegnt Sauðanesi á vetrum (sjá vísuna „Sauðanes er sessinn minn“), en það mun ekki rétt. Hitt er líkara, að hann hafi fyrst verið prestur á Þönglabakka, en með vissu er hann prestur að Munkaþverárklaustri 1610. Hann var talinn merkismaður og vel að sér, enda kenndi skólalærdóm (var sókzt eftir að koma börnum til kennslu hjá honum, að því er haft er eftir Páli Vídalín), hefir og verið söngfróður, ef rétt er, sem talið er, að Gísli Þorláksson, síðar byskup, hafi lært söng hjá honum. Hann var og skáldmæltur og eru fáeinir sálmar varðveittir eftir hann (sjá Lbs.). Til er hrafl af predikunum og bænum eftir hann (í Stockh. Papp. 8vo. nr. 19).

Hann þýddi postillu Marteins Möllers (sumir segja Meissners), og er sú þýðing ókunn (gæti verið það, sem er í Stokkhólmi).

Kona: Björg Ólafsdóttir.

Börn þeirra: Síra Ólafur aðstoðarprestur að Undornfelli, Rafn í Forsæludal, Helga átti Jón Sigurðsson, Sigríður átti Jón Ásmundsson að Reykjum í Ölfusi, Filippía átti Hannes Brandsson. Launsonur síra Hálfdanar var Jón skáld (að Hóli í Svartárdal), er m. a. orkti Orðskviðaklasa (PEÓl. Mm.; ÞP. Hist.Litt.; PVíd.; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.