Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hákon Jónsson

(9. júlí 1774–17. febr. 1817)

Prestur.

Foreldrar: Jón dannebrogsmaður Þorvaldsson í Deildartungu og kona hans Helga Hákonardóttir að Hurðarbaki í Reykholtsdal, Árnasonar. F. að Hurðarbaki, lærði fyrst hjá síra Birni Snorrasyni að Húsafelli. Tekinn í Reykjavíkurskóla eldra 1797, stúdent 1801, var síðan 9 ár kennari hjá Magnúsi dómstjóra Stephensen, fekk Eyri í Skutulsfirði 1810, vígðist 24. júní s.á., settur 25. júní s.á. prófastur í Norður-Ísafjarðarsýslu, skipaður 1812, hélt hvoru tveggja til æviloka. Varð fyrir snjóflóði á leið frá Hóli í Bolungarvík. Var vel gefinn maður og vel að sér, söngmaður, smiður og búsýslumaður, hagmæltur nokkuð; í Klausturpósti 1818 er eftir hann þýðing, „„Þrifnaðarkonur“; eftir hann er „Rekagrallari“ og fátt eitt annað (sjá Lbs.). Svo er talið, að hann hafi samið latnesk-íslenzka orðabók, hvar sem hún er niður komin.

Kona: Helga (f. 29. mars 1791) Árnadóttir í Meiri Hlíð í Bolungarvík, Magnússonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Síra Magnús á Stað í Steingrímsfirði, Guðrún átti Guðmund Jónsson í Teigakoti á Akranesi, Jón hreppstjóri á Sveinseyri í Dýrafirði. Ekkja síra Hákonar átti síðar Bjarna stúdent Gíslason, síðar prest á Söndum (Vitæ ord. 1810; SGrBf.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.