Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hákon Hannesson

(um 1662–1730)

Sýslumaður.

Foreldrar: Hannes „lögréttumaður Árnason í Norðtungu og kona hans Guðrún Árnadóttir bartskera, Halldórssonar í Álptanesi. Lærði í Skálholtsskóla og varð stúdent 1684, var 3 ár skrifari Þórðar byskups Þorlákssonar, fór utan 1687, með lofsamlegu meðmælabréfi frá Ólafi rektor Jónssyni og Þórði byskup Þorlákssyni, skráður í stúdentatölu 17. okt. s. á., fekk vonarbréf fyrir Rangárþingi 7. apr. 1688 og varð s. á. lögsagnari Gísla Magnússonar þar til 1692, fekk sýsluna að fullu við lát hans 1696 (staðfesting konungs 19. apríl 1701), bjó í Norðtungu 1693–6, sagði að nafni til af sér sýslunni 17. júlí 1709 eða slepti þá a. m. k. hálfri sýslunni við Brynjólf Thorlacius, og urðu síðan deilur með þeim, var ritari yfirdóms á alþingi 10.–24. júlí 1710, vikið frá sýslunni 16. júlí 1711 vegna óreglu o. fl. af fulltrúunum (Oddi lögmanni og Páli Beyer), en konungur bauð 9. júlí 1712, að hann skyldi fá aftur embætti sitt, en fulltrúarnir reyndu samt að aftra honum frá embætti; hann hafði þó betur og hélt sýslunni þangað til hann fekk lausn 26. apríl 1727, bjó lengstum á Skammbeinsstöðum, en var 1729 að Lambalæk í Fljótshlíð og mun hafa andazt þar. Frá 1716 hafði hann lögsagnara (Pál, son sinn, 1716–24, Nikulás Magnússon 1724 z –7). Hann var í ýmsu mikilhæfur maður, en oft riðinn við málaþras. Það sýnir traust á honum, að hann var kvaddur til að vera dómari í Schwartzkopfsmáli, en mjög fer Fuhrmann amtmaður, sem var sakaraðili þar, þungum orðum um hann.

Kona (1689). Þrúður Björnsdóttir sýslumanns að Espihóli, Pálssonar.

Börn þeirra: Þórður stúdent í Norðtungu (d. 4. nóv. 1761), Páll lögsagnari í Vetleifsholti (d. 1742), Hannes stúdent og læknir að Hólmi (d. 1761), Þorsteinn á Skammbeinsstöðum (d. 1778), Ragnhildur átti síra Guðmund Eiríksson að Hofi í Vopnafirði, Halldór (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.