Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hrafn Sveinbjarnarson

(– –4. mars 1213)

Goðorðsmaður á Eyri (Hrafnseyri).

Foreldrar: Sveinbjörn Bárðarson svarta (Atlasonar, í beinan legg af Geirþjófi landnámsmanni) og kona hans Steinunn Þórðardóttir, Oddleifssonar.

Kona: Hallkatla Einarsdóttir í Kaldaðarnesi, Grímssonar (í beinan legg af Þorgils errubeinsstjúp).

Börn þeirra: Einar og Grímur (drukknuðu saman), Sveinbjörn og Krákur (féllu á Örlygsstöðum með Sturlungum), Steinunn átti Odd Ólason á Söndum, Herdís átti fyrst Eyjólf Kársson, síðar Sigmund Gunnarsson í Súðavík, Hallgerður átti Vikar Þorkelsson, Þuríður átti Helga Sveinsson að Lokinhömrum, Helgasonar, Þórey. Af Hrafni er sérstök saga. Var hann atgervismaður, völundur að hagleik, skáld, læknir, sem ýmsir þeir frændur, vel lærður, lögspakur, vel máli farinn og að öllu fróður. Hann fór ungur víða um lönd. Tók síðan við búi gagnauðugu og goðorði. Gerðist höfðingi mikill, rausnsamur, svo að af bar, vinsæll og mikils virður. Þorvaldur goði Snorrason að Vatnsfirði óvingaðist við hann, náði valdi á honum, eftir nokkurar atrennur, og lét vega hann (Bps. bmf. I; Sturl.; sjá og Landn.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.