Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hjörtur Jónsson

(5. apríl 1776 [1775, Vita]––2. nóv. 1843)

Prestur.

Foreldrar: Jón í Klasbarðahjáleigu, Skúmsstöðum, síðast í Akurey í Landeyjum, Hjartarson og kona hans Anna Þorleifsdóttir í Akurey, Árnasonar. F. á Klasbarða. Lærði 6 ár skólalærdóm hjá síra Þorvaldi Böðvarssyni, en varð stúdent 1795 úr heimaskóla frá Gísla rektor Thorlacius, var næsta ár hjá foreldrum sínum, en 1796–1800 kennari að Hlíðarenda, hjá Vigfúsi sýslumanni Þórarinssyni, vígðist 20. júlí 1800 aðstoðarprestur síra Runólfs Jónssonar í Stórólfshvolsþingum og átti þá heima í Akurey, hjá foreldrum sínum, en varð atvinnulaus næsta ár, er síra Runólfur fekk Keldnaþing, var settur konrek:tor í Reykjavíkurskóla eldra 27. sept. 1802, kenndi í neðsta bekk og hafði hálf laun, til 1805; þá var hann látinn fylgja Bjarna Bjarnasyni frá Sjöundá utan til aftöku, en var heitið að halda skyldi kennarastöðunni; kom aftur næsta vor og þá (6. júní 1806) leystur frá kennslustörfum með biðlaunum, fekk Gilsbakka 11. okt. 1806, fluttist þangað næsta vor og hélt til æviloka, en hafði aðstoðarprest frá 1839 (síra Jón, son sinn).

Hann var valmenni og vinsæll, heldur vel gefinn, gerðist þungfær vegna fitu á seinni árum sínum.

Kona (19. maí 1814): Þórunn (f. 7. júlí 1785, d. 14. ágúst 1855) Vigfúsdóttir prests Björnssonar. Þau áttu 2 börn, og komst upp annað þeirra, síra Jón á Gilsbakka. Sumir telja laundóttur hans Kristínu (f. 7. nóv. 1832 að Haukagili), er skrifuð var Sigurðardóttir og átti Odd Halldórsson í Félagsgarði í Rv. (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.