Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hjörleifur Þórðarson

(21. apríl 1695–27. maí 1786)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Þórður Þorvarðsson á Starmýri í Álptafirði og kona hans Sigríður Hjörleifsdóttir á Geithellum (Jónssonar prests í Bjarnanesi, Bjarnasonar). Lærði í Skálholtsskóla, stúdent 1714. Fekk Þvottá 22. dec. 1716, mun hafa vígzt 17. jan. 1717, varð þegar mikill athafna- og búsýslumaður og gaf Þvottárkirkju marga gripi, fekk Hallormsstaði 31. júlí 1732, fekk Valþjófsstaði 1743 (fremur en 1742), í skiptum við síra Magnús Guðmundsson (konungsstaðfesting 20. maí 1746) og hélt til æviloka, en hafði aðstoðarpresta frá 1758, varð prófastur í NorðurMúlasýslu 1747, eftir að Múlaþingi hafði verið skipt í 2 prófastsdæmi, lét af því starfi 1770, en var aftur skipaður til þess starfs af byskupi 12. febr. 1783, þangað til ný prófastskosning hefði farið fram. Í skýrslum Harboes er hælt vitsmunum hans, en hann talinn upp með sér og sagður sinkur. Hann var mikilhæfur maður og átti þjark talsvert við Hans sýslumann Wium, gáfumaður, vel að sér og mikils metinn, í fremstu kennimanna röð, búhöldur mikill og vel efnum búinn. Hann þýddi „Encomium Mariæ“ eftir Erasmus Rotterodamus og Paradísaraldingarð eftir Joh. Arndt (er hvort tveggja í handritum í Lbs.). Hann var skáld gott bæði á latínu og íslenzku. Latnesk þýðing hans á Passíusálmum síra Hallgríms Péturssonar (,Quinquaginta psalmi passionales“) er pr. í Kh. 1785, Háttalykill á latínu, pr. í Rv. 1918 (en ekki eftir bezta hdr., sjá Lbs.), erfiljóð latnesk pr. í Blöndu, I. Kvæði og sálmar eru eftir hann í handritum (sjá Lbs.), rímur hans af Þjalar-Jóni eru í mörgum uppskriftum í Lbs.

Kona 1: Margrét (d. 13. ág. 1729, 26 ára) Sigurðardóttir á Jörfa, Þorgilssonar.

Dætur þeirra: Herdís átti síra Jón Bergsson yngra í Bjarnanesi, Sigríður eldri átti Guðbrand Árnason.

Kona 2: Bergljót (d. 9. ág. 1746, 41 árs) Jónsdóttir prests að Hólmum, Guttormssonar.

Börn þeirra: Þórður á Skjöldólfsstöðum, Guttormur lögsagnari í Múlaþingi, Sigríður yngri átti síra Pál Magnússon á Valþjófsstöðum, Margrét átti síra Þorstein Stefánsson að Krossi.

Kona 3: Helga (66 ára 1762) Þorvaldsdóttir prests að Hofi í Vopnafirði, Stefánssonar, ekkja Péturs Björnssonar (sýslumanns að Burstarfelli, Péturssonar); bl. með báðum mönnum sínum.

Hún arfleiddi 11. júlí 1750 síra Hjörleif og börn hans að eignum sínum (Saga Ísl. VI; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.