Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hjörleifur Þorsteinsson

(11. apríl [2. mars Vita]– 1764–13. maí 1827)

Prestur.

Foreldrar: Síra Þorsteinn Stefánsson að Krossi og kona hans Margrét Hjörleifsdóttir prests á Valþjófsstöðum, Þórðarsonar. F. í Hörgsdal á Síðu. Lærði hjá föður sínum og síðan síra Hílaríusi Illugasyni að Mosfelli, var í Skálholtsskóla 1782–4, en er skóli var þar ekki haldinn, naut hann veturinn 1785 tilsagnar síra Þorvalds Böðvarssonar, þá aðstoðarprests á Flókastöðum í Fljótshlíð, en varð stúdent 12. júní 1785 úr heimaskóla frá Hannesi byskupi Finnssyni, með góðum vitnisburði, var síðan með frændfólki sínu austur í Múlaþingi og kenndi unglingum undir skóla; 1790 var lagt fyrir hann að taka við Desjarmýri, vígðist 13. júní s.á., tók ekki prestsetrið til ábýlis, vegna landskemmda, er urðu þar sama sumar, en bjó á Bakka í Borgarfirði, fekk Hjaltastaði í Útmannasveit 17. febr. 1800 og hélt til æviloka. Hann var hraustmenni að burðum og glímumaður mikill. Var mjög vel látinn, búsýslu- og dugnaðarmaður mikill, enda varð vel efnum búinn.

Kona 1 (3 okt. 1790): Bergljót (d. 12. jan. 1810, á 42. ári) Pálsdóttir prests á Valþjófsstöðum, Magnússonar (þau systrabörn).

Börn þeirra, er upp komust: Þórður stúdent, Sigríður átti síra Þórð Gunnlaugsson að Ási í Fellum, Páll d. ókv. og bl., síra Einar í Vallanesi, Helga átti fyrr síra Þorkel Árnason að Stafafelli, síðar Sigurð hreppstjóra Sveinsson að Svínhólum í Lóni, Margrét átti síra Jón Jónsson Austfjörð, síðast í Kirkjubæ í Tungu.

Kona 2 (1810): Margrét (f. um 1765, d. 11. maí 1850) Jónsdóttir prests yngra í Bjarnanesi, Bergssonar (þau systrabörn); bl. (Vitæ ord.; HÞ.. SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.