Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hjálmar Þorsteinsson

(2. dec. 1742–2. júlí 1819)

Prestur. Talinn sonur Þorsteins Þórðarsonar og Kristínar Barna-Hjálmarsdóttur (f. á Rima í Tálknafirði), en haldinn af sumum sonur Björns stúdents Halldórssonar á Sveinseyri, og kona hans (Ólöf Jónsdóttir), sem var ljósmóðir að honum, tók hann að sér, ól hann upp og útvegaði honum sjálf skóla í Skálholti 1761, en þaðan varð hann stúdent 20. maí 1764, með ágætum vitnisburði. Gekk síðan í þjónustu Eggerts skálds Ólafssonar, vígðist 9. ág. 1767 aðstoðarprestur síra Jóns Ólafssonar á Stað á Reykjanesi, fekk 20. apr. 1770 uppreisn fyrir of bráða barneign með konu sinni, en skyldi ekki mega gegna aðstoðarprestsstarfi á sama stað. Því var það, að síra Jón Ólafsson fekk Tröllatungu 1771 (í skiptum við síra Benedikt Pálsson), fluttist þangað vorið 1772, og var þá síra Hjálmar aðstoðarprestur hans þar framvegis, til þess er síra Jón lét af prestskap 1776, og fekk síra Hjálmar þá veiting fyrir Tröllatungu 16. júlí 1776, en tók að fullu við vorið eftir. Í prófastskosningu í Strandasýslu 22. júní 1781 fengu þeir síra Hjálmar og síra Jón Sveinsson á Stað jafnmörg atkvæði hvor, en síra Jón var skipaður prófastur. Síra Hjálmar sagði af sér Tröllatungu vorið 1798, en áskildi sér hálft ábýli á staðnum og hálfar tekjur og átti þar heima til æviloka.

Hann var gáfumaður og vel að sér í mörgum greinum, fornum og nýjum, fróðleiksmaður, lagði og stund á náttúrufræði og lækningar; kennimaður góður, skrifari, málari og bókbindari, ásjálegur maður og hraustmenni, auðsæll, búsýslumaður mikill og iðjusamur, en þó heldur # drykkfelldur, þókti stundum nokkuð óviðfelldinn í skapsmunum og sinkur af fé (svo var og kona hans). Hann var skáldmæltur, og eru eftir hann í handritum (í Lbs.) sálmar og andleg kvæði og gamankviðlingar. Í Lbs. er og þýðing hans (úr dönsku) á sögu af Súsönnu. Hann sneri og úr dönsku „Skipperkiste“, þ. e. sjófarabænum, og reyndi til að koma á prent, en varð ekki af.

Kona (1768): Margrét (f. í febr. 1748, d. 26. nóv. 1917) Jónsdóttir prests á Stað og Tröllatungu, Ólafssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Síra Björn í Tröllatungu, Jón í Skálholtsvík, Guðbrandur að Valshamri, Jórunn var með bróður sínum að Valshamri óg., en átti í föðurgarði launbarn andvana með Magnúsi síðar skipstjóra í Flatey Jónssyni (HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.