Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hjálmar Jónsson (Bólu-Hjálmar)

(29. sept.[?]– 1796–5. ágúst 1875)

Launsonur Jóns Benediktssonar (þá lausamanns, síðar bónda í Krossanesi við Eyjafjörð) með Marsibil Semingsdóttur, þingeyskri (fæddist á Hallandi). Ólst upp á Dálksstöðum við gott atlæti og fekk tilsögn nokkura. Var síðan með föður sínum á Blómsturvöllum í Kræklingahlíð. Varð snemma hagmæltur, síðar höfuðskáld, einnig fróðleiksmaður mikill, smiður góður og skurðhagur. Fluttist til Skagafjarðar, bjó fyrst í Bólstaðagerði (Bólu) hjá Uppsölum í Blönduhlíð, Nýjabæ í Skagafjarðardölum og víðar, oftast við þröngan kost. Rit: Ljóðmæli, Ak. 1879; Rímur af Göngu-Hrólfi, Rv. 1884; Kvæði og kviðlingar, Rv. 1888; Tvennar rímur, Rv. 1905; Ljóðmæli, Rv. 1915–19; Ljóðmæli, Rv. 1942; sagnir í þjóðsögum; söguþættir í Blöndu, Ömmu o. fl.

Kona: Guðný (d. 1845) Ólafsdóttir að Uppsölum, Jónssonar (þau Hjálmar systrabörn).

Börn þeirra: Sigríður átti Lárus Erlendsson í Holtastaðakoti, Skúli, Friðrik, Ólafur (d. á Akureyri), Hjálmar í Haugsnesi, Guðrún var með föður sínum, meðan hann lifði, óg., en átti börn með ýmsum (Formálar fyrir kvæðabókum hans; Brynjólfur Jónsson: Bólu-Hjálmarssaga, Eyrarb. 1911).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.