Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hjálmar Guðmundsson

(1779–1. febr. 1861)

Prestur.

Foreldrar: Síra Guðmundur Guðmundsson (hinn prestlausi), er þá var aðstoðarprestur í Miðdal og bjó að Miðhúsum í Byskupstungum, og kona hans Hólmfríður Hjálmarsdóttir lögréttumanns í Gufunesi, Erlendssonar. F. að Miðhúsum. Lærði fyrst hjá föður sínum. Tekinn í Reykjavíkurskóla eldra 1795, stúdent 1. júní 1798, með ágætum vitnisburði, enda var jafnan viðbrugðið minni hans. Varð djákn í Hítardal 28. maí 1800, en sagði því starfi af sér 5. júní 1801. Var forstöðumaður barnaskólans á Hausastöðum á Álptanesi 1806–12, fekk Kolfreyjustað 28. maí 1814, vígðist 14. maí 1815 og fluttist þá austur, fekk Hallormsstaði 16. ág. 1832 og hélt til æviloka. Hann var gáfumaður og fjörmaður, en stundum undarlegur nokkuð í prédikunum sínum, og hafa varðveitzt sagnir um hann.

Lærdómsbók í kristnum fræðum er til eftir hann í handritum (Lbs.). Hann hafði og þýtt „Himnaríki á jörðu“ eftir Salzmann (Himmel auf der Erde), breytt því riti, fellt úr og aukið við (hvar sem það er niður komið), vildi fá það prentað (eins og lærdómsbók sína), en tókst ekki. Hann var skáldmæltur; hann breytti rímum Jóns Espólíns af Júlíusi Cæsar (Lbs.).

Kona (9. okt. 1805): Guðrún (d. 26. júlí 1855, 79 ára) Gísladóttir að Laugardalshólum, Þórðarsonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Gísli héraðslæknir, Margrét átti Jón Jónsson að Brekku í Fljótsdal.

Það var almælt, að síra Bjarni Sveinsson að Stafafelli væri í raun réttri sonur síra Hjálmars, en ekki kannast gamalt fólk frótt eystra við það, svo að ætla má, að það sé kvittur einn (Vitæ ord. 1815; HÞ.; Blanda IV; SGrBf.; Óðinn X).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.