Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Hjalti Þorsteinsson

(1665– líkl. 17.jan.1754)

Prestur, málari.

Foreldrar: Síra Þorsteinn Gunnlaugsson að Þingeyraklaustri og kona hans Dómhildur Hjaltadóttir í Teigi í Fljótshlíð, Pálssonar. Var tveggja ára gamall tekinn í fóstur af föðurföður sínum, síra Gunnlaugi Sigurðssyni í Saurbæ í. Eyjafirði, naut þar tilsagnar (einnig í söng og teikningum) síra Jóns Hjaltasonar, móðurbróður síns, er þar var þá aðstoðarPrestur, síðar sóknarprestur þar, tekinn í Hólaskóla 1680, í Skálholtsskóla 1685, stúdent þaðan 1686, var síðan í þjónustu Þórðar byskups Þorlákssonar, fór utan 1688, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 20. sept. s.á., varð attestatus í guðfræði 20. febr. 1690, en varði jafnframt öllum stundum, sem hann mátti frá námi, til þess að nema hljóðfæraslátt, höggmyndagerð og málaralist, er hann hafði tamið sér frá barnæsku, kom aftur til landsins s.á., vígðist 21. dec. 1690 kirkjuprestur í Skálholti, fekk konungsveiting fyrir Vatnsfirði 5. dec. 1691, fluttist þangað næsta vor, lét af prestskap þar 1742, en dvaldist þar til æviloka. Var kjörinn prófastur í Ísafjarðarsýslu 10. júní 1711 og skipaður af byskupi um 27. júlí 1712 (gegn mótmælum sínum), losaðist við vesturhluta prófastsdæmisins 1727, en hélt norðurhluta þess til 1732. Hann var óvenjulega fjölhæfur maður, prýðilega að sér í stjarnfræði, enda gerði hann landabréf af Vestfjörðum öllum, af Vaðlaþingi og af fjörðum í Strandasýslu. Hann var og mikils metinn og hafði bréfaskipti við flesta helztu menn landsins (bréfasafn í AM. 410, fol.).

Söngmaður var hann ágætur og hljóðfæraleikari, völundur í smíðum, sendi Jóni byskupi Vídalín skákborð frábært, smíðaði og skreytti fagran predikunarstól í Vatnsfjarðarkirkju.

Mikið orð fór af málaralist hans og það þegar í æsku. Um 1687–8 skrautmálaði hann Skálholtskirkju að innan, síðar Vatnsfjarðarkirkju, málaði og andlitsmyndir, og eru margar glataðar (af Þórði byskupi Þorlákssyni og konu hans, Jóni byskupi Vídalín o. fl.), en mynd af Steini byskupi Jónssyni í þjóðminjasafni mun vera eftir hann, af síra Páli Björnssyni í Selárdal (í hdr. í Lbs.), af Árna Magnússyni og má vera fleiri mönnum. Hann kenndi a.m. k. 2 mönnum að mála, síra Runólfi Gíslasyni og dóttursyni sínum, síra Þorbergi Einarssyni.

Kona (1692): Sigríður (f. um 1660, d. 1736) Þorsteinsdóttir prests á Völlum í Svarfaðardal, Illugasonar.

Börn þeirra, er upp komust: Elín átti Markús sýslumann Bergsson í Ögri, Steinvör átti síra Gísla Hannesson á Stað í Grunnavík, Guðrún átti fyrr Magnús Jónsson frá Eyri í Seyðisfirði, Magnússonar, átti son fram hjá honum 1722 (með Einari smið Jónssyni), og var það Þorbergur, síðar prestur á Eyri, urðu málaferli af og hjónabandið dæmt ógilt, vegna impotentiæ manns hennar, og mætti hún giftast aftur, en barneign hennar þó hórdómsbrot, átti síðar launson með Ólafi Árnasyni, síðar sýslumanni í Barðastrandarsýslu, varð síðan s.k. Árna Brynjólfssonar (bróður Halldórs byskups á Hólum), og voru þau bl., Halldóra átti síra Þórð Guðmundsson á Grenjaðarstöðum (Saga Ísl. VI; Ævisaga Jóns Þorkelssonar, skólameistara í Skálholti, Rv. 1910; Þorv. Th. Landfrs.; Matthías Þórðarson: Ísl. listamenn 1, Rv. 1920; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.